Kári til liðs við sænsku meistarana

Kári í treyju Malmö.
Kári í treyju Malmö. Ljósmynd/mff.se

Landsliðsmaðurinn Kári Árnason er farinn frá enska B-deildarliðinu Rotherham og er genginn í raðir sænska meistaraliðsins Malmö. Þetta er staðfest á vef sænska liðsins.

Kári hefur leikið með liði Rotherham undanfarin þrjú í þremur deildum eh hann hóf atvinnumannaferil sinn í Svíþjóð fyrir tíu árum þegar hann lék með liði Djurgården og fagnaði þar meistaratitlinum.

Kári samdi við Malmö til tveggja ára en eftir 13 umferðir í sænsku úrvalsdeildinni er Malmö í fjórða sæti deildarinnar með 25 stig og er sjö stigum á eftir toppliði Gautaborgar.

„Mig langar að spila fyrir Malmö sem er stærsta félagið í Skandinavíu og ég er mjög ánægður að fá þetta tækifæri. Ég hef spilað á móti Malmö og man að stuðningsmenn félagins eru háværir og veita liðinu mikinn stuðning,“ segir Kári á vef Malmö en þjálfari liðsins er Normaðurinn Åge Hareide sem stýrði norska landsliðinu á árum áður.

Kári er 32 ára gamall og hefur átt fast sæti byrjunarlið íslenska landsliðsins síðustu árin en hann hefur spilað 40 landsleiki og skorað í þeim 2 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert