Sýndi okkur virðingarleysi

Slaven Bilic, knattspyrnustjóri West Ham.
Slaven Bilic, knattspyrnustjóri West Ham. AFP

Xavi Roura, þjálfari knattspyrnuliðsins Lusitanos frá Andorra, segir að Slaven Bilic, nýráðinn knattspyrnustjóri West Ham, hafi sýnt sér og sínu félagi virðingarleysi þegar liðin mættust í gærkvöld á Upton Park í 1. umferð forkeppni Evrópudeildar UEFA.

Bilic stillti ekki upp sínu sterkasta liði og var ekki sjálfur við stjórnvölinn á bekknum, heldur sat í áhorfendastúkunni og fylgdist með leiknum þaðan. Terry Westley, yfirmaður akademíu West Ham, stjórnaði liðinu. West Ham vann örugglega, 3:0.

„Slaven Bilic sýndi okkur virðingarleysi með því að vera ekki á bekknum. Mér þykir leiðinlegt að svona nokkuð skuli gerast í landinu sem fann upp háttvísina í fótboltanum. Sennilega hefur hann talið að lið okkar væri ekki nógu merkilegt fyrir sig. Hann hefur unnið marga titla og telur sig kannski vera „hinn útvalda“. En ég vona að svona lagað gerist ekki aftur hjá félagi eins og West Ham," sagði Roura við Sky Sports.

„Hann er knattspyrnustjóri West Ham og því geri ég ráð fyrir því að hann sé á bekknum. Slaven Bilic, hinn útvaldi, á að koma með liði sínu til Andorra,“ sagði þjálfarinn ennfremur.

Honum verður þó sennilega ekki að ósk sinni því Westley sagði við fréttamenn eftir leikinn að Bilic ætti annríkt vegna skipulagningar á æfingaferð liðsins og færi því ekki með liðinu til Andorra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert