Markmaðurinn með sigurmarkið

Thibaut Courtois ver með tilþrifum frá Thiago Silva í vítaspyrnukeppninni.
Thibaut Courtois ver með tilþrifum frá Thiago Silva í vítaspyrnukeppninni. AFP

Belgíski markvörðurinn Thibaut Courtois var í aðalhlutverki Englandsmeistara Chelsea í knattspyrnu þegar þeir lögðu París SG að velli í alþjóðlegu meistarakeppninni í Charlotte í gærkvöld.

Zlatan Ibrahimovic kom PSG yfir á 25. mínútu en Victor Moses jafnaði fyrir Chelsea á 65. mínútu. Vítaspyrnukeppni þurfti til að knýja fram úrslit og þar var Courtois heldur betur í sviðsljósinu.

Hann varði frá Jean-Christophe Bahebeck og Thiago Silva, og eftir að hafa varið frá þeim síðarnefnda í sjöundu umferð fór Courtois sjálfur á vítapunktinn og tryggði Chelsea sigur, 6:5.

Chelsea hafði áður tapað fyrir New York Red Bulls, 2:4, í keppninni og mætir Barcelona í Landover í Maryland á þriðjudagskvöldið í sínum síðasta leik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert