Ramos sveik Manchester United

Sergio Ramos mun að öllum líkindum framlengja við Madrídinga.
Sergio Ramos mun að öllum líkindum framlengja við Madrídinga. AFP

Ensku dagblöðin eru með hafsjó af slúðri úr heimsboltanum í dag, en Sergio Ramos, fyrirliði Real Madrid, er að öllum líkindum að endurnýja samning sinn við félagið. Hægt er að sjá allt helsta slúðrið í fréttinni.

Það hefur mikið verið rætt um möguleg vistaskipti Angel Di Maria frá Manchester United til Paris Saint-Germain í Frakklandi. Franska liðið hefur ekki gefist upp á að reyna að fá hann, en samkvæmt Guardian er félagið búið að leggja fram tilboð upp á 28,5 milljónir punda. Manchester United keypti hann frá Real Madrid á síðasta ári fyrir 59,7 milljónir punda.

Chelsea í ensku úrvalsdeildinni er þegar farið að skoða aðra vinstri bakverði eftir að félagið seldi Filipe Luis aftur til Atletico Madrid. Brasilíski varnarmaðurinn, Alex Telles, sem leikur með Galatasaray, er í sigtinu en það er Sun sem greinir frá því.

Tottenham ætlar sér að fá Ashley Young, vængmann Manchester United, eftir að félaginu mistókst að landa Yannick Bolasie frá Crystal Palace, en þetta kemur fram í Daily Mirror. Tottenham hætti við Bolasie þar sem verðmiðinn var talinn of hár.

Manchester United finnst eins og Sergio Ramos, fyrirliði Real Madrid, hafi svikið félagið, en hann mun að öllum líkindum framlengja samning sinn við Madrídarliðið á næstu vikum. United hefur þá verið sterklega orðað við Nicolas Otamendi, varnarmann argentínska landsliðsins, en félagið mun ekki leggja fram tilboð í hann samkvæmt Manchester Evening News.

Massimo Ferrero, forseti Sampdoria á Ítalíu, finnst enska úrvalsdeildarfélagið Liverpool verðleggja Mario Balotelli, framherja félagsins, of hátt, en Sampdoria hefur mikinn áhuga á að fá hann.

AC Milan hefur hafnað 4,8 milljóna punda tilboði Newcastle United í M'Baye Niang, en hann er 20 ára gamall framherji sem leikið hefur 38 leik fyrir Milan og skorað 1 mark.

Aston Villa er að ræða við búlgörsku markamaskínuna, Dimitar Berbatov, sem er án félags eftir að hafa leikið með Monaco undanfarin tímabil. 

Jordan Veretout, liðsfélagi Kolbeins Sigþórssonar hjá Nantes í Frakklandi, er í sigtinu hjá nokkrum félögum í ensku úrvalsdeildinni, en Aston Villa og Leicester hafa mikinn áhuga á þessum 22 ára gamla Frakka.

West Ham United er að undirbúa 12 milljóna punda tilboð í Moussa Sow, framherja Fenerbahce í Tyrklandi, en Sunderland hefur einnig áhuga á honum. 

Mohamed Salah, leikmaður Chelsea á Englandi, verður þá lánaður til AS Roma á Ítalíu. Þá ætlar Napoli á Ítalíu að næla sér í Vlad Chiriches, varnarmann Tottenham Hotspur, en hann er metinn á 4,5 milljónir punda.

Internazionale og Porto hafa þá bæði áhuga á Erik Lamela hjá Tottenham, en hann gæti farið á láni út tímabilið. Villarreal hefur þá mikinn áhuga á því að fá Roberto Soldado frá Tottenham, en honum hefur ekki tekist að finna sig á Englandi.

Dimitar Berbatov í baráttunni með Monaco.
Dimitar Berbatov í baráttunni með Monaco.
Angel Di Maria hefur ekki staðið undir þeim væntingum sem …
Angel Di Maria hefur ekki staðið undir þeim væntingum sem gerðar voru til hans. EPA
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert