Ellefu ára boltastrákur náði jafntefli við Bolton

Bolton gerði jafntefli við utandeildarlið.
Bolton gerði jafntefli við utandeildarlið.

Það er ekki á hverjum degi sem ellefu ára gamall drengur fær að stýra knattspyrnuliði, og hvað þá gegn jafn fornfrægum andstæðingi og Bolton sem spilar í ensku B-deildinni.

Sú var hins vegar raunin á dögunum þegar utandeildarliðið AFC Fylde náði 1:1 jafntefli við fyrrum félag Eiðs Smára Guðjohnsen. Við stjórnvölinn hjá utandeildarliðinu var Daniel Fryer, ellefu ára gutti með enga reynslu nema að hafa verið boltastrákur hjá liðinu.

Fryer fékk að stjórna liðinu eftir að stuðningsmaður félagsins, sem hafði unnið það í happdrætti að fá að stýra því í æfingaleik, forfallaðist og leyfði hinum unga Fryer að fylla í skarðið. Hann sá um undirbúninginn fyrir leikinn, stjórnaði skiptingunum og svaraði spurningum á blaðamannafundi eftir leik. Honum til halds og trausts var þó aðalþjálfari liðsins, Dave Challinor.

„Hann hefur verið mikil hjálp í kringum félagið sem boltastrákur, en fékk vænlega stöðuhækkun þarna,“ sagði Challinor.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert