Forráðamenn United í Barcelona?

Pedro Rodríguez.
Pedro Rodríguez. LLUIS GENE

Samkvæmt frétt Sky Sports á Manchester United að vera áhugasamt um að kaupa spænska sóknarmanninn Pedro frá Barcelona.

Óstaðfestar fréttir í spænskum miðlum segja auk þess að forráðamenn United séu staddir í Barcelona til þess að ná samningum við félagið en fleiri félög í ensku úrvalsdeildinni eiga að vera áhugasöm um að fá kappann í sínar raðir.

Samkvæmt Sky hafa engar viðræður átt sér stað en talið er að Pedro hafi klásúlu í samningi sínum um að mega fara verði 22 milljóna punda tilboð lagt í hann. Ekkert félag hefur boðið í hann samkvæmt Sky.

Pedro gekk í raðir Barcelona 17 ára gamall og hefur síðan þá unnið fimm spænska meistaratitla og þrjá Meistaradeildartitla.

Hann hefur hins vegar verið fastagestur á varamannabekknum hjá Luis Enrique frá því að hann tók við liðinu á síðasta ári.

Liðsfélagi Pedro, Sergio Busquets, sagði nýlega að félagi sinn til langs tíma gæti þurft að færa sig um set frá Katalóníu til þess að fá að spila reglulega.

„Ég hef talað við Pedro og mér finnst sem liðsfélagi hans og vinur að hann eigi að vera hér áfram í langan tíma, en ég skil að hann hefur efasemdir. Hann vill spila en það er mikil samkeppni hérna. Í okkar liði eru bestu leikmennirnir og það er mjög erfitt. Ég vona að hann verði áfram en ákvörðunin er hans," sagði Gerard Pique, liðsfélagi Pedro.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert