Fer Toni Kroos óvænt til Liverpool?

Hvítklæddur Toni Kroos í baráttunni með Real Madrid.
Hvítklæddur Toni Kroos í baráttunni með Real Madrid. AFP

Slúðurmiðlar á Bretlandseyjum greindu frá því í morgun að Brendan Rodgers, þjálfari Liverpool, hafi hug á að klófesta þýska miðvallarleikmanninn Toni Kroos frá Real Madrid fyrir 35 milljónir punda. Rodgers vill styrkja liðið með heimsklassaleikmanni áður en sumarglugginn lokar og telur hann Kroos síðasta púslið sem liðinu vantar fyrir átökin í ensku úrvalsdeildinni í vetur.

Rodgers hefur verið drjúgur á leikmannamarkaðnum í sumar eftir vonbrigði vetrarins hjá Liverpool. Ljóst er að færi Kroos í Liverpool yrðu það ein af óvæntustu leikmannakaupum sumarsins.

Kroos, sem er 25 ára gamall, var í lykilhlutverki þegar Þýskaland varð heimsmeistari í fyrrasumar en að móti loknu gekk hann í raðir Real Madrid frá þýska stórliðinu Bayern München. Í vetur lék hann 36 deildarleiki fyrir þá hvítklæddu og skoraði tvö mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert