Fullkominn fyrir United

Gareth Bale í landsleik.
Gareth Bale í landsleik. AFP

Walesverjinn Gareth Bale er talinn vera helsta skotmark Louis van Gaal, þjálfara Manchester United, eftir að ljóst varð að Angel di María er á förum frá félaginu til Paris Saint-Germain í Frakklandi.

Fyrrum fyrirliði Manchester United, Bryan Robson, fullyrðir að van Gaal yrði himinlifandi með að fá Gareth Bale sem hefur leikið undanfarin tvö ár með spænska stórliðinu Real Madrid. Robson segir Walesverjann smellpassa í hugmyndafræði van Gaal.

„Kosturinn við Bale er að hann getur leikið tvær mismunandi stöður - sem kantmaður og framherji,“ sagði Robson við ESPN. „Það er eiginleiki sem þjálfarinn kann að meta.“

Bale hefur ekki alltaf átt upp á pallborðið hjá stuðningsmönnum Real Madrid eftir að hann gekk í raðir þeirra sumarið 2013. Hann hefur skorað 28 mörk í 58 deildarleikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert