„Ég finn ekki fyrir pressu“

Martial fagnar í leik með fyrrverandi liði sínu, Monaco.
Martial fagnar í leik með fyrrverandi liði sínu, Monaco. AFP

Nýjasti liðsmaður Manchester United, Ant­hony Martial, segir að hann muni höndla pressuna sem fylgir því að spila í treyju númer 9 hjá enska stórliðinu. Hann sagði það í fyrsta viðtali sínu eftir komuna til Manchester við sjónvarpsstöð félagsins.

Martial er 19 ára gamall en United keypti hann frá Monaco í gær á 36 milljónir punda og er hann þar með dýrasti táningur sögunnar. 

„Ég finn ekki fyrir pressu. Ég veit af pressunni en er tilbúinn að takast á við hana,“ sagði Martial eftir að hann skrifaði undir samning við Manchester United. 

Hann ætli sér að standa sig vel og hafi lagt sig allan fram síðustu misseri til að komast í stórlið. „Ég er mjög ánægður og stoltur vegna þess að ég er kominn í enskt stórlið. Fjölskyldan er mjög ánægð, enda lagði ég hart að mér til að komast hingað.“

Martial sagði að hann hefði rætt við knattspyrnustjóra Manchester United, Louis van Gaal, áður en hann skrifaði undir samning við United. „Ég talaði við stjórann og veit að ég þarf að sýna mínar bestu hliðar og vera duglegur. Mér finnst ekki auðvelt að tala um eigin kosti en ég er hraður leikmaður. Vonandi gengur þetta vel.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert