Engar áhyggjur af upphæðinni

Anthony Martial á æfingu franska landsliðsins í gær.
Anthony Martial á æfingu franska landsliðsins í gær. AFP

Anthony Martial, dýrasti fótboltatáningur heims, segir að hann láti peningaupphæðirnar ekki hafa áhrif á sig en Manchester United keypti hann á þriðjudaginn af Mónakó fyrir 36 milljónir punda.

Sú upphæð gæti hækkað í 58 milljónir punda, um 80 milljón evrur, ef Martial nær hinum ýmsu markmiðum á ferli sínum með enska félaginu. Á þeim lista má finna ákveðna upphæð ef hann verður kjörinn besti knattspyrnumaður heims.

„Ég veit ekki hvort ég sé 80 milljón evra virði en ég hef engar áhyggjur af þessum upphæðum. Ég fer þangað vegna fótboltans. Kaupverðið er samkomulag félaganna tveggja og það setur enga pressu á mig. Fjölskyldan mín er afar ánægð með að ég sé á leið í svona stórt félag. Þau eru vissulega dálítið stressuð vegna verðmiðans en ég ætla að halda minni einbeitingu og sýna og sanna hvers virði ég er," sagði Martial á fréttamannafundi franska landsliðsins í gær en hann gæti spilað sinn fyrsta A-landsleik annað kvöld þegar Frakkland mætir Portúgal í vináttulandsleik.

„Louis van Gaal spurði mig hvaða stöðu ég vildi helst spila. Ég vil helst spila sem fremsti maður en hann sagði mér að ég gæti spilað nokkrar stöður. Það er þjálfarinn sem ræður því en sama hvaða hlutverk ég fæ, ég mun gera mitt allra besta," sagði Martial sem er 19 ára gamall og skoraði 15 mörk í 70 leikjum fyrir aðallið Mónakó.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert