Sautján ára í Meistaradeildarhópi

Arsenal er enskur bikarmeistari.
Arsenal er enskur bikarmeistari. AFP

Franski táningurinn Jeff Reine-Adelaide er í 25 manna hópi sem Arsenal tilkynnti í gær fyrir riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu en hann er aðeins 17 ára gamall og kom til enska félagsins frá Lens í sumar.

Reine-Adelaide vakti athygli fyrir góða frammistöðu með Arsenal á undirbúningstímabilinu og nú hefur Arsene Wenger knattspyrnustjóri félagsins sýnt honum það traust að velja hann í hópinn sem þurfti að skila inn í gær.

Sóknarmaðurinn Joel Campbell er einnig í hópnum hjá Arsenal en búist var við því að hann myndi yfirgefa félagið í sumar.

Bakvörðurinn Hector Bellerin er hinsvegar ekki í hópnum en þar sem hann er fæddur eftir 1. janúar 1994 og fellur undir skilyrði UEFA um uppalda leikmenn er hann einn af sjö leikmönnum Arsenal sem eru á svokölluðu B-lista og nota má í keppninni.

Arsenal er í riðli með Bayern München, Olympiacos og Dinamo Zagreb í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert