Brendan Rodgers rekinn

Brendan Rodgers hefur verið rekinn úr starfi knattspyrnustjóra Liverpool.
Brendan Rodgers hefur verið rekinn úr starfi knattspyrnustjóra Liverpool. AFP

Stórtíðindi voru að berast úr herbúðum Liverpool sem hefur ákveðið að reka knattspyrnustjóra sinn Brendan Rodgers. Liverpool situr í tíunda sæti deildarinnar með 12 stig eftir átta umferðir og það er árangur sem forráðamenn telja ekki nægilega góðan.

Norður-Írinn var ráðinn knattspyrnustjóri Liverpool í byrjun júní árið 2012 og tók við félaginu af Skotanum Kenny Daglish. 

Rodgers hefur ekki tekist að vinna titil á þremur árum sínum sem knattspyrnustjóri hjá félaginu. Besti árangur Rodgers í ensku úrvalsdeildinni er þegar Liverpool hafnaði í öðru sæti deildarinnar tímabilið 2013/2014.

Liverpool hafnaði í sjötta sæti ensku úrvalsdeildarinnar á síðastliðnu keppnistímabili með 62 stig og mistókst að tryggja sér sæti í Meistaradeild Evrópu. 

Þjóðverjinn Jürgen Klopp sem áður þjálfaði Borussia Dortmund hefur þráfaldlega verið orðaður við starfið undanfarnar vikur og þykir hann líklegur til að vera ráðinn knattspyrnustjóri Liverpool.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert