„Ein besta stund lífs míns“

Jürgen Klopp við undrskriftina í gærkvöld.
Jürgen Klopp við undrskriftina í gærkvöld. Ljósmynd/Heimasíða Liverpool

„Þetta er algjörlega frábær tilfinning og mikill heiður fyrir mig að koma hingað. Þetta er ein besta stund lífs míns og mér líður eins og þetta sé draumur,“ sagði Jürgen Klopp, nýr knattspyrnustjóri Liverpool, við sjónvarpsstöð félagsins.

Klopp skrifaði undir þriggja ára samning við Liverpool í gær og klukkan 9 hittir hann fréttamenn á fundi þar sem hann verður kynntur til sögunnar.

„Ég hef alltaf hugsað um að starfa á Englandi. Fótboltinn hér heillar mig og Liverpool var alltaf fyrsti kosturinn. Ég er mjög spenntur. Þegar ég kom hingað með Dortmund fyrir ári síðan þá var ég spenntur vegna sögu félagsins. Þetta er mjög sérstakur staður, sá sögulegasti,“ sagði Klopp.

„Ég er mjög spenntur fyrir áskoruninni sem bíður okkar og að innleiða mínar hugmyndir. Það er hæfileikaríkur leikmannahópur hjá félaginu og það er enn til mikils að keppa á tímabilinu. Það er mikilvægast að vinna og þetta er spurning hvernig þú vinnur og hvernig þú spilar leikinn. Mitt lið verður að gefa allt í leikinn í hverjum einasta leik.“

„Ég er hér því ég hef trú á liðinu og möguleikum þess. Við erum ekki besta liðið í heimi en hverjum er ekki sama? Við viljum verða besta lið heims í framtíðinni. Það eru vandamál til staðar og þau verður að leysa. Við höfum góða varnarmenn, framherja og miðjumenn. Fyrsti leikur okkar er á móti Tottenham og við verðum að búa til lið fyrir þann leik.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert