Liverpool-menn, spennið beltin

Jürgen Klopp samdi við Liverpool til þriggja ára.
Jürgen Klopp samdi við Liverpool til þriggja ára. AFP

Liverpool-goðsögnin Kenny Dalglish heillaðist eins og margir aðrir af málflutningi og framkomu Jürgen Klopp þegar Þjóðverjinn var kynntur sem nýr knattspyrnustjóri Liverpool í dag.

Klopp lýsti sjálfum sér sem „hinum eðlilega“, sagðist vilja spila fótbolta með bensínið í botni, og lofaði því að skila titli innan fjögurra ára. Dalglish afrekaði það síðastur að gera Liverpool að Englandsmeistara, árið 1990, en hann varð sex sinnum meistari sem leikmaður.

„Ég var að horfa á blaðamannafund Klopp og hann sló í gegn. Ég held að stuðningsmennirnir verði að spenna beltin, ég er viss um að þeir munu kunna vel að meta hann,“ sagði Dalglish.

„Hann virðist ekki vera of upptekinn af sjálfum sér, sem er eitthvað sem Liverpool-stuðningsmenn tengja við. Ég er viss um að þeir taka honum opnum faðmi. Hann lýsti sjálfum sér sem „þeim venjulega“ og það verða þeir ánægðir með, því þeir líta á sig sem frekar venjulegt fólk,“ sagði Dalglish.

„Ég þekki hann ekki. Ég hef bara séð klippur í fjölmiðlum en hann virkaði mjög vel á mann í morgun og ég held að það boði gott fyrir alla,“ sagði Dalglish.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert