Anfield rýmdur af lögreglu

Frá Anfield.
Frá Anfield. AFP

Lögreglan í Liverpool hefur lokað Anfield, knattspyrnuleikvangi Liverpool, og er með viðbúnað á svæðinu. Leikvangurinn hefur verið rýmdur.

Enskir fjölmiðlar segja frá því að tveir einstaklingar hafi horfið innan leikvangsins og hefur lögreglan staðfest að ástandið á svæðinu sé ótryggt. Í kjölfarið var leikvangurinn rýmdur og hefur Laure Tacey, fréttamaður Liverpool Echo, greint frá því að starfsmenn á vellinum bíði úti í rigningunni fyrir framan. Rætt er um mögulega sprengjuhótun en lögregla hefur ekki staðfest það. Mikill viðbúnaður er þó á svæðinu.

Fólk sem var í ferð um leikvanginn kemst ekki í bíla sína þar sem bílastæðið er afmarkað innan girðingarinnar sem lögreglan hefur lokað af. Mennirnir tveir sem sagðir eru týndir voru í einum slíkum hópi sem leiddur var um svæðið. Eru þeir sagðir hafa gerst sekir um grunsamlegt athæfi.

Uppfært 17.51: Lögreglan er þessa stundina að leita innan Anfield og viðbúnaður er enn mikill, en hún talar nú um að einn maður sé týndur innan leikvangsins. Þeim sem hafa komið að og ætlað að kaupa miða eða varning tengdan Liverpool hefur verið vísað frá og sagt að koma aftur á morgun.

Uppfært 18.31: Miklar vangaveltur eru nú á meðal fólks hvort leikur Liverpool og Bournemouth í enska deildabikarnum geti farið fram á morgun. Ljóst er að búist er við miklum mannfjölda og er fólk sammála því að það eigi að vera í fyrirrúmi að tryggja öryggi fólks. Lögregla hefur staðfest að eins manns sé leitað og segja sjónarvottar að leitarhundar séu komnir á svæðið.

Uppfært 18.52: Forráðamenn Liverpool segja ástandið enn ótryggt og aðgerðir lögreglu standa enn yfir. 

Uppfært 19.12: Liverpool segir að ekki sé hægt að taka ákvörðun um leikinn sem fram á að fara á morgun fyrr en frekari upplýsingar berist frá lögreglu. Aðgerðir standa enn yfir. Krár og veitingastaðir í grennd við Anfield verða opin í kvöld en mikil öryggisgæsla er þó í kringum leikvanginn sjálfan.

Uppfært 20.19: Svo virðist sem lögreglan hafi minnkað viðbúnað sinn við Anfield, þó engar fregnir hafi borist af leitinni á Anfield. Ekki virðist vera talin hætta á sprengjuhótun, þar sem leikur Everton og Norwich fór fram samkvæmt áætlun á Goodison Park skammt frá.

Uppfært 22.10. Ekkert hefur verið gefið út af lögreglu og forráðamenn Liverpool hafa ekkert viljað gefa upp um ástandið. Reikna má með að það komi betur í ljós í fyrramálið hvort leikur Liverpool og Bournemouth í bikarnum fari fram annað kvöld. 

Uppfært 22.15. Um leið og kallað var eftir því að engin tilkynning hafi verið gefin út birtist hún. Liverpool segir að leikurinn á morgun fari fram samkvæmt áætlun og að lögreglan hafi náð stjórn á ástandinu.

Sjá: http://www.mbl.is/sport/enski/2015/10/27/leikid_a_anfield_samkvaemt_aaetlun/

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert