Er ekki með neinn Le Saux núna

José Mourinho stýrði æfingu í Ísrael í dag.
José Mourinho stýrði æfingu í Ísrael í dag. AFP

José Mourinho skaut föstum skotum á fyrrverandi lærisvein sinn, Graeme Le Saux, á fréttamannafundi í dag fyrir leik Chelsea við Maccabi Tel Aviv í Ísrael annað kvöld.

Lið Chelsea er nú komið til Ísraels í fyrsta sinn í 14 ár, eða síðan að liðið lék þar mánuði eftir hryðjuverkin í New York þann 11. september 2001. Sex leikmenn Chelsea báðust undan því að fara í þá ferð, svo skömmu eftir hryðjuverkin, en það voru þeir Eiður Smári Guðjohnsen, Marcel Desailly, Emmanuel Petit, William Gallas, Albert Ferrer og téður Le Saux.

Nú er aðeins rétt rúm vika liðin frá hryðjuverkunum í París, en Mourinho segir engan leikmann hafa beðist undan því að fara með til Haifa.

„Það var ekkert vandamál í leikmannahópnum. Ég er líka ekki með neinn Graeme Le Saux. Það voru allir óttalausir og vildu bara koma hingað,“ sagði Mourinho.

Ástæðan fyrir því að hann nefndi Le Saux sérstaklega er sennilega sú að sá síðarnefndi hefur gagnrýnt Mourinho harðlega vegna framkomu hans við Evu Carneiro, fyrrverandi lækni Chelsea. Le Saux, sem er í ráðgjafastarfi hjá enska knattspyrnusambandinu, sakaði Mourinho um að fara með fótboltann 30 ár aftur í tímann með hegðun sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert