Góðar og slæmar fréttir frá Man Utd

Louis van Gaal og Wayne Rooney á æfingu í dag.
Louis van Gaal og Wayne Rooney á æfingu í dag. AFP

Wayne Rooney og Anthony Martial, sóknarmenn Manchester United, eru mættir til æfinga á ný fyrir leikinn gegn PSV í Meistaradeild Evrópu á morgun, en engu að síður voru nokkrir leikmenn fjarverandi.

Þeir voru báðir fjarri góðu gamni í 2:1-sigri United á Watford um helgina, en Martial yfirgaf meðal annars Wembley-leikvanginn á hækjum eftir vináttuleik Frakka og Englendinga í síðustu viku. Báðir æfðu þeir hins vegar í dag og koma til greina í hópinn á morgun.

Marouane Fellaini sneri sömuleiðis aftur til æfinga í dag eftir að hafa misst af síðustu tveimur leikjum vegna meiðsla, en það eru hins vegar ekki bara góðar fréttir frá United. Sex leikmenn aðalliðsins voru ekki með á æfingunni.

Phil Jones og Ander Herrera fóru báðir af velli gegn Watford og æfðu ekki í dag og þá var Bastian Schweinsteiger heldur ekki með þrátt fyrir að hafa spilað gegn Watford. Þá eru Luke Shaw og Antonio Valencia fjarri góðu gamni næstu mánuðina. Michael Carrick hefur sömuleiðis ekki náð sér góðum af meiðslum sem hann hlaut í vináttuleiknum gegn Frökkum.

United er á toppi B-riðils Meistaradeildarinnar og tryggja sér sæti í 16-liða úrslitunum með sigri á PSV á morgun, en hollenska liðið vann fyrri leik liðanna í september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert