Arsenal var með United á heilanum

NIstelrooy og Viera ræða málum í leiknum ótrúlega. Gary Neville …
NIstelrooy og Viera ræða málum í leiknum ótrúlega. Gary Neville gengur á milli og virðist reyna að stilla til friðar. AFP

Ruud van Nistelrooy, fyrrverandi sóknarmaður Manchester United, segir að Arsenal hafi verið með hann og Manchester United á heilanum. Einnig segist Hollendingurinn sakna samkeppninnar sem var á milli liðanna.

Arsenal fékk sekt upp á 175.000 pund eftir leik liðanna á Old Trafford í september 2003. Martin Keown, Lauren, Ray Parlour og Patrick Vieira, leikmenn Arsenal, voru allir úrskurðaðir í leikbann eftir ólæti á vellinum í kjölfarið á því að Nistelrooy klúðraði vítaspyrnu á síðustu mínútu leiksins.

Viera var rekinn af velli fyrir að sparka í Nistelrooy og Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, kallaði Hollendinginn svindlara. „Þessi leikur var svakalegur. Við mættum þessu ósigrandi Arsenal-liði og ég fékk víti á síðustu mínútu en skaut í þverslá. Þá varð allt vitlaust,“ sagði Nistelrooy.

„Ég vissi ekkert hvað var í gangi. Ég gat bara hugsað um að hafa klúðrað vítaspyrnunni. Viera var rekinn út af og beið eftir mér í göngunum. Mér gat ekki verið meira sama og labbaði framhjá honum,“ bætti Nistelrooy við.

Hann minnist leikja liðanna með söknuði. „Ég held að Arsenal hafi verið með mig og United á heilanum á þessum tíma. Aðdragandi leikjanna var spennuþrunginn en ég reyndi að halda ró minni á vellinum. Ég hef hins vegar ekkert á móti leikmönnum Arsenal sem ég mætti og sakna þessara leikja,“ sagði Nistelrooy að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert