Özil segir að allt sé mögulegt

Özil í sínu fínasta pússi ásamt kærustu sinni, Mandy Capristo.
Özil í sínu fínasta pússi ásamt kærustu sinni, Mandy Capristo. AFP

Þýski knattspyrnumaðurinn Mesut Özil hefur farið vel af stað á tímabilinu. Hann hefur nú þegar lagt upp 11 mörk í ensku úrvalsdeildinni, þar af hefur hann lagt upp sjö mörk í sjö síðustu leikjum.

Sjálfur segist hann ekki þurfa að skora mörk, honum líði best þegar aðrir skori eftir sendingar frá honum. „Ég er liðsmaður. Ég þarf ekki að skora mörk til að vera með gott sjálfstraust. Hver sá sem er í besta færinu á auðvitað að taka skotið en ég hef hins vegar áttað mig á því að ég þarf stundum að láta vaða,“ sagði Özil.

„Auk þess leik í minni uppáhaldsstöðu þessa stundina, í „holunni“ bak við sóknarmanninn. Það er líka auðvelt að leggja upp mörk þegar þú ert í svona góðu liði. Við þekkjum hver annan mjög vel og vitum hvert á að hlaupa og senda knöttinn,“ bætti Özil við.

Aðspurður hvort góð frammistaða hans upp á síðkastið gæti verið lykilatriði í titilbaráttu Arsenal sagði Özil: „Frammistaða mín er einungis hluti af heildinni. Við höfum unnið bikarkeppnina tvisvar og viljum halda áfram að bæta okkur. Ef við náum að gera það og höldum stöðuleika er allt mögulegt. En andstæðingar okkar sofa ekki á verðinum,“ sagði Þjóðverjinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert