„Leicester City getur unnið deildina“

Louis van Gaal brúnaþungur á hliðarlínunni í leik Manchester United …
Louis van Gaal brúnaþungur á hliðarlínunni í leik Manchester United gegn PSV Einhoven í vikunni. AFP

Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United, sat fyrir svörum í dag á blaðamannafundi sem haldinn var í tilefni af toppslag ensku úrvalsdeildarinnar sem fram fer á morgun þegar Manchester United heimsækir toppliðið Leicester City á King Power Stadium. 

Stuðningsmenn Manchester United eru margir hverjir argir yfir þeim leikstíl sem Hollendingurinn lætur liðið spila og vilja meina að leikmenn ættu að fá meira frjálsræði inni á vellinum. 

„Ef að við værum ekki að skapa færi þá hefði ég áhyggjur, en staðreyndin er hins vegar sú að við erum að skapa færi og að sama skapi gefum við fá færi á okkur. Úrslitin hafa einnig verið góð þannig að ég sé ekki ástæðu til þess að hafa áhyggjur,“ sagði Louis van Gaal á blaðamannafundinum.

Leicester City er allflestum til mikillar undrunar á toppi ensku úrvalsdeildarinnar eftir 13 umferðir og Louis van Gaal telur að Leicester City geti staðið upp sem meistarar í vor. 

„Ég held að það hafi engin spáð því að Leicester City yrði á toppi ensku úrvalsdeildarinnar á þessum tímapunkti ekki einu sinni þeir sjálfir. Munurinn á liðunum í ensku úrvalsdeildinni er ekki svo mikill og félögin hafa öll fjárhagslegt bolmagn til þess að styrkja leikmannahópana. Af þeim sökum tel ég mögulegt að Leicester City geti staðið uppi sem enskir meistarar í vor,“ sagði Louis van Gaal um framhaldið hjá Leicester City. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert