Markmiðið enn 40 stig

Claudio Ranieri, knattspyrnustjóri Leicester City.
Claudio Ranieri, knattspyrnustjóri Leicester City. AFP

Leicester City trónir á toppi ensku úrvalsdeildarinnar með 28 stig eftir 13 umferðir, einu stigi meira en Manchester United. Þessi lið mætast einmitt á King Power Stadium í toppslag umferðarinnar klukkan 17.15 síðdegis í dag.

Claudio Ranieri, knattspyrnustjóri Leicester City, er enn með báða fætur á jörðinni þrátt fyrir góða byrjun liðsins. 

„Ég vil þakka Arsene (Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal) fyrir að hafa trú á liðinu mínu og segja að við getum orðið enskir meistarar í vor,“ sagði Ranieri á blaðamannafundi í gær.

„Deildin er mjög skrýtin og opin í báða enda. Markmiðin okkar hafa ekkert breyst og við stefnum ennþá á að ná í 40 stig. Það er markmiðið okkar þessa stundina, en það gæti breyst eftir tvo mánuði,“ sagði Ranieri um markmið félagsins í vetur. 

„Eins og allir aðrir er ég forvitinn og spenntur að sjá liðið mitt spila þessa dagana og þá sér í lagi hvernig leikmenn munu bregðast við því að spila stórleiki eins og þann sem framundan er,“ sagði Ranieri enn fremur. 

Leikur Leicester City og Manchester United verður í beinni textalýsingu á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert