Mikilvægur sigur Liverpool á Gylfa og félögum

Liverpool sigraði Swansea, 1:0, í 14. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í dag. Eina mark leiksins skoraði James Milner úr vítaspyrnu á 62. mínútu. Liverpool er þar með komið í 6. sæti deildarinnar með 23 stig en Swansea er áfram með 14 stig í 15. sæti.

Liverpool hóf leikinn af miklum krafti, pressaði gestina og leyfði þeim lítið að leika með knöttinn. Heimamenn voru nálægt því að skora fyrsta mark leiksins á 6. mínútu. Jordan Ibe var þá við það að komast í gott færi en varnarmaður Swansea komst í boltinn og af honum small boltinn í stönginni. 

Gestirnir frá Wales náðu að vinna sig inn í leikinn eftir því sem leið á hálfleikinn, án þess að skapa sér hættuleg færi. Staðan að loknum fyrri hálfleik markalaus.

Það var rólegt yfir leiknum í upphafi síðari hálfleiks. Heimamenn héldu knettinum vel, án vandræða fyrir gestina þó. Það var því nánast eins og þruma úr heiðskíru lofti þegar Liverpool fékk vítaspyrnu á 62. mínútu. Boltinn fór þá hönd Neil Taylor eftir sendingu Jordan Ibe inn í vítateig Swansea.

James Milner skoraði af miklu öryggi úr vítaspyrnunni. Gestirnir reyndu að jafna leikinn en tilraunir þeirra voru hálfmáttleysislegar og sigur Liverpool staðreynd.

Fylgst var með gangi mála í textalýsingu á mbl.is.

90. Leiknum er lokið! Mikilvægur sigur Liverpool.

90. Venjulegur leiktími liðinn og það eru fimm mínútur í uppbótartíma. Gestirnir eru ekki líklegir til að jafna en maður veit aldrei í boltanum.

80. Pressa frá gestunum. Tvær hornspyrnur á stuttum tíma. Getur Swansea jafnað?

75. Liverpool hefur haldið boltanum vel eftir markið og rúlla honum rólega sín á milli. Gestirnir þurfa að vera ákveðnari ef þeir ætla sér að næla í stig.

62. Mark! Liverpool er komið yfir með marki frá James Milner úr vítaspyrnu! Spyrnan var dæmd eftir að Neil Taylor fékk boltann í höndina eftir sendingu Jordan Ibe inn í teiginn.

58. Leikurinn er heldur bragðdaufur þessa stundina. Liverpool stjórnar leiknum en boltinn gengur hægt á milli manna og Swansea á ekki í neinum vandræðum með að verjast sóknartilburðum heimamanna.

46. Síðari hálfleikur er hafinn!

45. Fyrri hálfleik á Anfield er lokið. Liverpool byrjaði leikinn af miklum krafti en Swansea hefur komist inn í leikinn. Mörkunum hlýtur að rigna í síðari hálfleik!

36. Leikmenn Swansea fá aðeins að leika með boltann líka, pressa Liverpool er ekki jafn mikil og hún var fyrri hluta hálfleiksins.

30. Heimamenn eru meira með boltann, eða nánast bara með boltann en gengur illa að finna glufur á vörn gestanna.

6. Stöngin! Jordan Ibe var kominn í frábært færi en varnarmaður Swansea varð á undan og komst í boltann. Hann var nálægt því að skora sjálfsmark því boltinn small í stönginni!

1. Leikurinn af hafinn!

Byrjunarliðin eru klár og þau má sjá hér að neðan:

Liverpool: Mignolet, Clyne, Skrtel, Lovren, Moreno, Can, Milner, Lallana, Ibe, Firmino, Benteke.
Swansea: Fabianski, Naughton, Bartley, Williams (c), Taylor, Britton, Ki Sung-Yueng, Sigurdsson, Routledge, Ayew, Éder.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert