Arsenal tapaði tveimur dýrmætum stigum

Arsenal sækir Norwich heim.
Arsenal sækir Norwich heim. AFP

Norwich og Arsenal skildu jöfn, 1:1, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Eftir leikinn er Arsenal í 4. sæti deildarinnar með 27 stig en heimamenn í Norwich eru í 16. sæti með 13 stig.

Gestirnir frá London voru talsvert sterkari nánast allan fyrri hálfleikinn. Þeir komust yfir á 30. mínútu þegar Þjóðverjinn Mesut Özil kom knettinum í markið. John Ruddy, markvörður Norwich, gaf slaka sendingu fram völlinn, beint á Alexis Sánchez. Hann var fljótur að skila boltanum á Özil sem kom honum í markið.

Arsenal-menn urðu værukærir eftir markið og heimamenn jöfnuðu metinn á 43. mínútu. Grabban fékk þá sendingu í gegnum miðja vörn Arsenal, hélt varnarmanni frá sér og setti boltann af öryggi í markið. Staðan 1:1 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Færin voru af skornum skammti í síðari hálfleiknum. Heimamenn komust líklega næst því að skora þegar Gabriel, varnarmaður Arsenal, átti óvæntan skalla í átt að eigin marki um miðjan hálfleikinn. Petr Cech var vel vakandi í markinu og varði meistaralega. 

Liðunum tókst ekki að koma knettinum í mark andstæðinganna í síðari hálfleik og 1:1 jafntefli því niðurstaðan og Arsenal mistókst þar með að komast upp að hlið toppliða Manchester City og Leicester.

Fylgst var með gangi mála í textalýsingu á mbl.is.

90. Leiknum er lokið! 1:1 jafntefli er niðurstaðan.

90. Aðeins uppbótartími eftir. Liðin virðast ætla að sættast á skiptan hlut.

80. 10 mínútur eftir af leiknum. Ætlar Arsenal ekki að skora markið sem dugir þeim til að komast upp að hlið Manchester City og Leicester á topp deildarinnar?

70. Petr Cech ver frábærlega frá samherja. Gabriel skallaði óvart í átt að eigin marki en Cech var vel vakandi og sýndi lipur tilþrif.

64. Alexis Sánchez er farinn af velli, virðist vera meiddur. Ekki eru það nú góðar fréttir fyrir Arsenal, þvert á móti!

56. Þetta er allt á rólegu nótunum hér í upphafi síðari hálfleiks. 

46. Síðari hálfleikur er hafinn!

45. Fyrri hálfleik er lokið. Staðan er 1:1 að honum loknum. Arsenal voru betri aðilinn nánast allan hálfleikinn en heimamenn vöknuðu undir lokin og hefðu getað skorað fleiri en eitt mark.

42. Mark! Akkúrat þegar ég ætlaði að fara að segja að Arsenal væri með leikinn í hendi sér, þá jafna heimamenn! Lewis Grabban skorar markið sem kemur á frábærum tíma fyrir Norwich.

30. Mark! Ég hefði átt að tala meira um að leikurinn væri rólegur! Mesut Özil kemur gestunum yfir! Mistök hjá Ruddy í marki Norwich sem spyrnir boltanum beint á Sanchez. Hann er fljótur að finna Özil sem kemur knettinum í netið. 1:0 fyrir Arsenal.

29. Leikurinn hefur verið rólegur hingað til. Gestirnir meira með boltann, eins og kannski var hægt að búast við.

10. Enn eru Arsenal-menn að lenda í meiðslavandræðum. Koscielny þarf að yfirgefa leikvöllinn en í hans stað kemur Gabriel inn á.

1. Leikurinn af hafinn!

Byrjunarliðin eru klár og þau má sjá hér að neðan:

Norwich: Ruddy; Wisdom, Bennett, Bassong, Olsson; Howson, Dorrans, O'Neil, Brady; Hoolahan; Grabban.
Arsenal: Cech; Bellerin, Mertesacker, Koscielny, Monreal; Flamini, Cazorla, Ramsey, Ozil, Sanchez; Giroud.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert