Steindautt hjá Tottenham og Chelsea

Tottenham og Chelsea gerðu markalaust jafntefli í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Eftir leikinn er Tottenham áfram í 5. sæti deildarinnar með 25 stig. Chelsea er hins vegar í 15. sæti með jafnmörg stig.

Liðin skiptust á að reyna að sækja í fyrri hálfleik en þorðu greinilega ekki að taka of mikla áhættu. Heimamenn réðu ferðinni meirihluta hálfleiksins, án þess þó að ná að skapa sér góð færi. Hættulegasta færi Tottenham fékk Son Heung-min en Begovic í marki Chelsea varði góðan skalla hans vel.

Chelsea-menn reyndu að sækja hratt en, líkt og heimamenn, áttu í vandræðum með að skapa sér góð færi. Eden Hazard fékk þó ágætt skallafæri um miðjan hálfleikinn en náði ekki að setja boltann á mark heimamanna. Staðan að loknum fyrri hálfleik því markalaus.

Varfærni liðanna minnkaði ekki í síðari hálfleik en Eden Hazard fékk besta færi hálfleiksins. Hann tók þá boltann viðstöðulaust en Hugo Lloris í marki Tottenham varði frábærlega frá honum. Nær komust liðin ekki og markalaust jafntefli því niðurstaðan.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu á mbl.is.

13.52 Leiknum er lokið! Markalaust jafntefli er niðurstaðan í leik Tottenham og Chelsea.

13.47 Venjulegur leiktími er liðinn á White Hart Lane og aðeins uppbótartími eftir.

13.42 Ég trúi því varla að við fáum ekkert mark í þennan leik. Það eru sex mínútur eftir af venjulegum leiktíma og fátt sem bendir til þess að mark eða mörk verði skoruð. Gestirnir reyna að halda knettinum og sækja en gengur lítið.

13.32 Það eru 15 mínútur eftir af leiknum og Diego Costa er farinn að hita upp. Það skyldi þó aldrei vera að hann komi inn á og skori eina mark leiksins.

13.25 Hazard! Þetta var besta færi leiksins. Belginn fékk sendingu inn í teiginn og tók boltann viðstöðulaust með vinstri fæti en Hugo Lloris varði frábærlega!

13.20 Heimamenn í Tottenham eru með talsverða yfirburði þessa stundina en leikurinn fer að mestu leyti fram á vallarhelmingi þeirra bláklæddu. Chelsea-menn liggja til baka og spila góðan varnarleik.

13.14 Ryan Mason meiðist og þarf að fara af velli. Hann festi takkana í grasinu og fékk slink á fótinn við það. Í hans stað kemur Argentínumaðurinn Erik Lamela inn á. 

13.10 Eden Hazard liggur á vellinum og fær aðhlynningu hjá lækni og sjúkraþjálfara Chelsea. Hazard þarf því að fara af vellinum um stundarsakir. Spurning hvort Mourinho sé ánægður með lækninn sinn þarna?

13.02 Síðari hálfleikur er hafinn!

12.47 Fyrri hálfleik er lokið. Staðan er markalaus eftir nokkuð fjörugan fyrri hálfleik á White Hart Lane. 

12.45 Það eru komnar 45 mínútur á klukkuna, aðeins uppbótartími eftir af fyrri hálfleik. Það lítur allt út fyrir að liðin ætli að spara mörkin fyrir síðari hálfleikinn.

12.41 Oscar klobbaði Ryan Mason upp úr skónum en skot hans að marki var slakt og fór framhjá. Mason er örugglega enn að reyna að ná áttum eftir þennan frábæra klobba!

12.30 Dembélé! Smaug eins og áll framhjá leikmönnum Chelsea og náði góðu skoti en Begovic var vel á verði í marki Chelsea.

12.26 Son með hörkuskalla en Begovic er vel á verði í marki Chelsea! Kane þrumaði boltanum fyrir markið og Son náði góðum skalla. 

12.22 Frábært skot hjá Pedro sem fór rétt yfir mark Tottenham! Gestirnir eru beittari þessa stundina.

12.19 Chelsea-menn að gera sig líklega. Oscar átti góða sendingu inn í teiginn frá vinstri og Hazard skallaði boltann rétt yfir mark Tottenham. Spurning hvað alvöru sóknarmaður hefði gert í þessu góða færi.

12.16 Kane var nálægt því að skora þarna. Skot fyrir utan vítateig sem Begovic í marki Chelsea varði, að mér sýndist, með öxlinni!

12.10 Leikurinn hefur farið nokkuð rólega af stað. Heimamenn eru meira með boltann en gestirnir virðast ætla að liggja til baka og beita skyndisóknum í dag.

12.00 Leikurinn er hafinn!

11.23 Varamenn Tottenham eru Vorm, Trippier, Wimmer, Carroll, Lamela, Onomah og Clinton. Á bekknum hjá Chelsea eru Amelia, Djilobodji, Baba Rahman, Mikel, Loftus-Cheek, Kenedy, Diego Costa. Athygli vekur að Costa er á bekknum hjá Chelsea en talið er líklegt að Hazard spili sem fremsti maður þeirra bláklæddu í dag.

11.10 Byrjunarliðin eru klár og þau má sjá hér að neðan:

Tottenham: Lloris, Walker, Alderweirald, Vertonghen, Rose, Dier, Mason, Dembele, Son, Eriksen, Kane.
Chelsea: 
Begovic, Ivanovic, Zouma, Cahill, Azpilicueta, Fabregas, Matic, Willian, Oscar, Pedro, Hazard.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert