Chelsea situr uppi með Falcao

Sjaldgjæf sjón; Falcao á ferðinni í leik með Chelsea.
Sjaldgjæf sjón; Falcao á ferðinni í leik með Chelsea. AFP

Martröð kólumbíska sóknarmannsins Falcao á Englandi virðist engan endi ætla að taka. Samkvæmt enskum miðlum vill franska félagið Monaco, sem Falcao er samningsbundinn, ekkert með hann hafa og Chelsea situr því uppi með hann.

Falcao, sem er 29 ára, lék sem lánsmaður hjá Manchester United á síðustu leiktíð og er í sama hlutverki hjá Chelsea á yfirstandandi keppnistímabili. Hann hefur einungis skorað eitt mark og byrjað inn á í tveimur leikjum en hefur ekkert komið við sögu vegna meiðsla síðan í lok október.

Chelsea borgaði 4 milljónir punda í sumar til að fá Falcao til liðsins. Hann lækkaði talsvert í launum frá því sem hann hafði í Frakklandi en fær þó 135.000 pund á viku hjá Englandsmeisturunum. Monaco vill ekki fá hann aftur því þá myndu þeir neyðast til að borga honum full laun; 265.000 pund á viku.

Falcao var fyrir nokkrum árum einn eftirsóttasti sóknarmaður í heimi en nú er öldin önnur. Fá lið virðast hafa áhuga á kappanum en ef til vill fæla launakröfur hans lið frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert