Mourinho segir Costa njóta forréttinda

Costa og Mourinho fylgjast með leiknum í gær, áður en …
Costa og Mourinho fylgjast með leiknum í gær, áður en Costa henti vestinu í átt að stjóranum. AFP

José Mourinho gefur lítið fyrir orðróm þess efnis að honum og framherjanum Diego Costa hafi lent saman eftir leik Tottenham og Chelsea í gær. Spænski sóknarmaðurinn var ónotaður varamaður í leiknum og virtist ekki sérstaklega hrifinn af því hlutskipti.

Costa henti meðal annars vestinu sínu í áttina að Mourinho eftir að hafa hitað upp í skamma stund. „Ef hann vill meiða mig þá gerir hann það ekki með því að kasta vesti í mig. Samband okkar er gott, sagði portúgalski knattspyrnustjórinn.

„Ég held að Costa njóti forréttinda vegna þess að hann er sá síðasti til að verma tréverkið. Allir aðrir hafa þurft að gera það. Fyrirliðinn okkar, Terry, var á bekknum, Ivanovic var á bekknum, Cahill var á bekknum, Fábregas var á bekknum, Oscar var á bekknum og Hazard, leikmaður ársins á síðasta tímabili, var á bekknum. Allir hafa verið þar,“ bætti Mourinho við.

„Costa hefur því notið þeirra forréttinda að hafa spilað alla leikina hingað til. Við töldum liðið sem lék í gær okkar besta kost og erum ánægðir með þá ákvörðun.“ Mourinho bætti því við að Costa hefði ekki neitað að hita upp, eins og einhverjir miðlar héldu fram. „Þegar ég bað hann að hita upp þá gerði hann það.“

Leikurinn í gær þótti heldur tíðindalítill og lauk með markalausu jafntefli. Englandsmeistararnir í Chelsea hafa ekki farið vel af stað en þeir eru í 14. sæti eftir 14 umferðir með 15 stig og eru 14 stigum á eftir toppliðum Manchester City og Leicester. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert