Stuðningsmenn City geta andað léttar

Agüero haltraði af velli á laugardaginn en segir að ekkert …
Agüero haltraði af velli á laugardaginn en segir að ekkert ami að sér. AFP

Stuðningsmenn Manchester City geta andað léttar en þeir hafa eflaust sopið hveljur þegar argentínski sóknarmaðurinn Sergio Agüero haltraði af velli gegn Southampton á laugardag. Agüero segir sjálfur að ekkert ami að honum.

Sóknarmaðurinn snjalli var nýkominn aftur á völlinn eftir að hafa verið frá keppni í nokkrar vikur vegna meiðsla. Hann hefur verið frekar óheppinn með meiðsli og því hafa stuðningsmenn City eflaust óttast það versta.

Agüero hughreysti alla sem voru með öndina í hálsinum þegar hann tjáði sig um líðan sína á twitter: „Til allra þeirra sem eru að spyrja um mig þá er ég í góðu lagi. Þetta var saklaust högg sem ég fékk á hælinn. Ég þakka öllum fyrir stuðninginn sem ég hef fengið!“

Argentínumaðurinn varð markakóngur í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð en hann skoraði 26 mörk. Hann er kominn með sjö mörk það sem af er tímabili, helmingi færri en markahæsti maður deildarinnar, Jamie Vardy.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert