Wenger ver ákvörðun sína

Margir leikmenn Arsenal eru meiddir.
Margir leikmenn Arsenal eru meiddir. AFP

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, ver ákvörðun sína að hafa látið Alexis Sánchez byrja gegn Norwich í ensku úrvalsdeildinni í gær. Sánchez var tæpur vegna meiðsla fyrir leik og haltraði meiddur af velli um miðjan síðari hálfleikinn.

„Ég hefði gefið honum frí en Sánchez sagðist vera klár í slaginn. Cazorla á í vandræðum með hnéð á sér, Koscielny fór meiddur af velli og Sánchez er meiddur,“ sagði Wenger eftir leikinn í gær. Arsenal tapaði dýrmætum stigum en leiknum lyktaði með 1:1 jafntefli.

„Ég veit ekki hversu lengi Sánchez verður frá vegna meiðslanna en þetta er mikið áfall. Meiðslin verða skoðuð nánar í dag og þá vitum við betur hversu alvarleg þau eru,“ bætti Wenger við.

Varnarjaxlinn Laurent Koscielny fór meiddur af velli í fyrri hálfleik og Santi Cazorla haltraði um völlinn undir lok leiks. Arsenal má ekki við fleiri meiðslum en fjölmargir lykilleikmenn liðsins glíma við meiðsli. Áður en Sánchez og Koscielny meiddust í gær kom í ljós fyrir viku að franski miðjumaðurinn Franc­is Coqu­el­in verður frá keppni í allt að fjóra mánuði vegna meiðsla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert