Messi þarf ekki að hafa áhyggjur strax

Jamie Vardy þarf að skora fram í öllum leikjum Leicester …
Jamie Vardy þarf að skora fram í öllum leikjum Leicester fram í febrúar til að skáka Lionel Messi. AFP

Jamie Vardy, framherji Leicester City, er sá leikmaður sem hefur skorað í flestum leikjum í röð í ensku úrvalsdeildinni.

Vardy þarf hins vegar að halda áfram að skora í hverjum leik fram í febrúar til þess að skáka Lionel Messi.

Vardy á því nokkuð langt í land með að velta Lionel Messi af stalli í þessum efnum, en Messi skoraði í 21 leik í röð fyrir Barcelona árið 2012. 

Í nóvember árið 2012 skoraði Messi í 4-2 sigri Barcelona gegn Mallorca. Þar á eftir fylgdi lota með 20 leikjum þar sem Messi var ávallt á meðal markaskorara liðsins áður en leikmenn Atletico Madrid héldu Messi í skefjum í maí árið 2013.

Vardy þarf þar af leiðandi að skora í öllum leikjum Leicester þangað til þeir mæta Liverpool þriðjudaginn 2. febrúar árið 2016 til þess að jafna met Messi og bætir met argentínska framherjans ef hann skorar einnig gegn Manchester City laugardaginn 6. febrúar.

Messi skoraði 33 mörk í fyrrgreindri markahrinu sinni og endaði með 46 mörk í deildinni það tímabilið. Vardy hefur hins vegar skorað 13 mörk í deildinni það sem af er vetri í 11 leikjum.

Takist Vardy að skora gegn Gylfa Þór Sigurðssyni og félögum hans hjá Swansea á laugardaginn kemur jafnar hann árangur Jimmy Dunne sem skoraði í 12 leikjum í röð í efstu deild í Englandi fyrir Sheffield United tímabilið 1931/32. 

Stan Mortensen sem skoraði í 15 leikjum í röð fyrir Blackpool tímabilið 1950/1951 á hins vegar metið í efstu deild í Englandi. 

Þá myndi Vardy skjótast fram úr Gabriel Batistuta sem á metið í efstu deild í Ítalíu með marki á laugardaginn, en Vardy þarf að skora í fimm leikjum enn til þess að skjóta Gerd Müller ref fyrir rass, en Müller skoraði í 16 leikjum í röð fyrir Bayern München og á metið í efstu deild í Þýskalandi. 

Vardy hefur nú þegar farið farið fram úr lengstu markahrinu Cristiano Ronaldo, en hann skoraði í 10 leikjum í röð fyrir Real Madrid síðastliðið haust. 

Tölfræðiupplýsingarnar eru fengnar úr frétt Skysports sem má lesa hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert