Swansea fyrir alþjóða íþróttadómstólinn

Michel Vorm var markvörður Swansea áður en hann fór til …
Michel Vorm var markvörður Swansea áður en hann fór til Tottenham í fyrra. AFP

Eins og raunir Swansea í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu séu ekki nægar, þá þarf félagið að mæta fyrir alþjóða íþróttadómstólinn (CAS) í lok janúar og svara fyrir söluna á Michel Vorm til Tottenham í fyrra.

Það er hollenska félagið Utrecht sem hefur kært Swansea, en Utrecht seldi Vorm til Swansea fyrir 1,5 milljón punda árið 2011. Þess vegna átti Utrecht heimtingu á hlut í næstu sölu á Vorm, en Swansea segir að markvörðurinn hafi farið frítt til Tottenham og telur sig því ekki hafa þurft að greiða Utrecht krónu.

Á sama tíma og Vorm fór til Tottenham var varnarmaðurinn Ben Davies seldur til Tottenham, og Gylfi Þór Sigurðsson keyptur, en Swansea segir þessi félagaskipti ekki hafa haft neitt að gera með félagaskipti Vorm. Utrecht heldur öðru fram.

Utrecht hafði áður farið með málið til FIFA, alþjóða knattspyrnusambandsins, þar sem því var vísað frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert