Fékk góð ráð hjá mömmu

Lukaku er búinn að fagna mörgum mörkum í vetur.
Lukaku er búinn að fagna mörgum mörkum í vetur. AFP

Framherjinn Romelu Lukaku þakkar móður sinni fyrir að vera leikmaður Everton í dag. Hann gekk til liðs við Everton frá Chelsea árið 2014 eftir vel heppnaða dvöl sem lánsmaður í Bítlaborginni.

Lukaku segir að hann hafi hunsað símtöl frá Roberto Martínez, knattspyrnustjóra Everton, áður en ákvað loks að taka upp tólið.

„Hann hringdi þrisvar í mig og ég svaraði ekki í fyrstu tvö skiptin. Ég er ánægður að ég svaraði á endanum. Ég ræddi málin við hann, við Chelsea og móður mína. Hún sagði mér á endanum að fara til Everton og því sé ég ekki eftir,“ sagði Lukaku.

Lukaku og Jamie Vardy, leikmaður Leicester, eru markahæstir í ensku úrvalsdeildinni, hafa skorað 15 mörk hvor. Lukaku segist aldrei hafa leikið betur en á þessu tímabili.

„Ég er stöðugur og sterkur og veit hvað á að gera gegn andstæðingum mínum. Ég veit að ég finn alltaf leiðir til að skora og ég vil alltaf skora meira og meira, enda er tilfinningin sem því fylgir hreint út sagt frábær,“ bætti Lukaku við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert