Liverpool samdi við Grujic

Marko Grujic í treyju Liverpool í dag.
Marko Grujic í treyju Liverpool í dag. Ljósmynd/liverpoolfc.com

Enska knattspyrnufélagið Liverpool tilkynnti rétt í þessu að gengið hefði verið frá kaupum á Marko Grujic, 19 ára serbneskum miðjumanni, sem kemur frá Rauðu stjörnunni í Belgrad.

Grujic mun þó leika áfram í Serbíu því hann hefur verið lánaður aftur til Rauðu stjörnunnar til vorsins en hann á síðan að koma inní leikmannahóp Liverpool í sumar.

Grujic er leikmaður serbneska 21-árs landsliðsins og var í liði Serba sem urðu heimsmeistarar í U20 ára landsliðum á síðasta ári. Hann hefur leikið með aðalliði Rauðu stjörnunnar frá 17 ára aldri og á yfirstandandi tímabili hefur hann gert 5 mörk í 21 deildaleik með liðinu.

Grujic er fyrsti leikmaðurinn sem Liverpool kaupir eftir að Jürgen Klopp tók við liðinu. 

„Ég lýsi honum þannig að hann er hávaxinn strákur en fljótur og flinkur. Hann er með góðar sendingar og öflugur með boltann. En hann er ungur og þarf að læra, sem hann mun gera," sagði Klopp á  vef Liverpool í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert