Velur Suárez fram yfir Ronaldo

Brendan Rodgers.
Brendan Rodgers. AFP

Brendan Rodgers fyrrverandi knattspyrnustjóri Liverpool segir það vera ótrúlegt að fyrrverandi lærisveinn hans hjá félaginu, Luis Suárez, hafi ekki verið hópi þeirra þriggja leikmanna sem voru að lokum tilnefndir sem besti knattspyrnumaður í heimi í byrjun árs.

Suárez var seldur frá Liverpool til Barcelona árið 2014 á tíma Rodgers hjá Liverpool en Suárez er um þessar mundir markahæstur í deildinni, á undan þeim Messi, Christiano Ronaldo og Neymar sem voru tilnefndir.

„Það sýnir bara ákveðna pólitík vera gangi að hann hafi ekki verið í lokaúrvalinu. Hann fór frá Liverpool sem heimsklassa-leikmaður og gerði Barcelona að betra liði,” sagði Rodgers í gær þar sem hann var í hlutverki sparkspekings hjá Sky Sports.

„Hann er sannarlega á meðal þriggja bestu. Ef ég ætti að velja einhvern leikmann í mitt lið fyrir utan Lionel Messi yrði Suárez fyrir valinu,” sagði Rodgers.

Suárez hefur skorað 29 mörk í 29 leikjum fyrir Barcelona á leiktíðinni og skoraði meðal annars í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu gegn Juventus á síðasta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert