Sánchez líklega með gegn Chelsea

Alexis Sánchez haltrar af velli eftir að hafa meiðst í …
Alexis Sánchez haltrar af velli eftir að hafa meiðst í læri gegn Norwich 29. nóvember. AFP

Mesut Özil og Alexis Sánchez verða líklega báðir með Arsenal á sunnudaginn kl. 16 þegar liðið mætir Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Sánchez hefur verið frá keppni síðan að hann meiddist í læri í lok nóvember en Arsene Wenger knattspyrnustjóri sagðist á fréttamannafundi í dag vonast til þess að Sílebúinn yrði klár í slaginn.

Özil missti af leiknum við Stoke um síðustu helgi vegna meiðsla í fæti en er búinn að jafna sig.

„Miðað við síðustu viku þá eru engin stórvægileg vandamál hjá okkur. Góðu fréttirnar eru þær að Özil verður pottþétt með og ég held að Sánchez verði einnig með,“ sagði Wenger.

„Ég vil fara varlega með hann [Sánchez] því við höfum ekki efni á einhverju bakslagi núna. Það myndi þýða að hann væri búinn að vera mjög lengi frá keppni. Það hafa verið jákvæð teikn á lofti á æfingum í vikunni hvað hann varðar,“ sagði Wenger.

Frakkinn bætti því við að Francis Coquelin væri byrjaður að æfa aftur að fullu með liðinu og að Danny Welbeck myndi snúa aftur í næstu viku. Þá mun Tomás Rosický leika með U21-liði Arsenal á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert