Van Gaal hefur ekki gefið upp alla von

Louis van Gaal hefur trú á sínum mönnum.
Louis van Gaal hefur trú á sínum mönnum. AFP

Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United, hefur ekki gefið upp vonina á því að félagið verði enskur meistari í knattspyrnu í vor. Hann var ánægður með hvernig liðið lék gegn Stoke á þriðjudaginn og vonast eftir svipaðri frammistöðu gegn Chelsea á sunnudaginn.

Lærisveinar van Gaal eru sem stendur í 5. sæti úrvalsdeildarinnar, 10 stigum á eftir toppliði Leicester. Knattspyrnustjórinn telur að bilið sé ekki óyfirstíganlegt.

„Ég hef á tilfinningunni að þegar við sigrum Chelsea þá byrji deildin okkar aftur. Það er mjög mikilvægt en verður alls ekki auðvelt vegna þess að Chelsea tapar ekki leikjum eftir að Hiddink tók við stjórninni,“ sagði van Gaal.

„Keppni er ekki lokið, hvorki fyrir United né önnur lið. Tilfinningin er góð enda höfum við unnið tvo leiki í röð og leikið frábæra knattspyrnu og það gegn liðum sem eru í góðu formi,“ bætti van Gaal við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert