„Við trúum“

Ranieri vill að sínir menn haldi áfram að bæta sig.
Ranieri vill að sínir menn haldi áfram að bæta sig. AFP

Claudio Ranieri, knattspyrnustjóri Leicester, segir stuðningsmönnum liðsins að láta sig dreyma. Í hádeginu á morgun sækir Leicester Manchester City heim í uppgjöri efstu liðanna í ensku úrvalsdeildinni en fyrir leikinn er Leicester með þriggja stiga forystu á toppi deildarinnar.

Með sigri á morgun nær Leicester sex stiga forystu á milljarðalið City en Ranieri veit að það er nóg eftir af deildinni. „Jafnvel þó við vinnum á morgun þá getum við tapað næsta leik gegn Arsenal,“ sagði Ranieri en Leicester sækir Arsenal heim eftir rúma viku.

„Við verðum að halda áfram að leika eins og við höfum gert hingað til. Ég sagði leikmönnum mínum að við hefðum fengið 39 stig á fyrri hluta tímabilsins og ég vil 40 í síðari hlutanum. Þá endum við með 79 stig, sem ég veit ekki hvort dugir til að verða meistari, en ég vil að menn bæti sig stöðugt,“ bætti Ranieri við.

„Hvað sem verður þá hefur tímabilið verið frábært. Við trúum því að við séum að leggja hart að okkur. Við trúum. Fyrr eða síðar kemur að tapi en við megum ekki láta það breyta neinu,“ sagði knattspyrnustjóri Leicester.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert