Leicester eykur forskotið á toppnum

Leicester City steig stórt skref í átt að því að fullkomna öskubuskuævintýri sitt og standa uppi sem sigurvegarar í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla með 3:1 sigri sínum gegn Manchester City í uppgjöri tveggja efstu liða deildarinnar á Etihad, heimavelli Manchester City, í hádeginu í dag. 

Robert Huth kom Leicester yfir strax á 3. mínútu leiksins með marki eftir fyrirgjöf frá Riyad Mahrez. Varnarleikur Manchester City var slakur í aðdraganda marksins og svo virtist sem leikmenn liðsins væru ekki vaknaðir til lífsins. 

Manchester City var meira með boltann í fyrri hálfleik og jöfnunarmarkið virtist liggja í loftinu, en leikmenn Leicester minntu reglulega á sig með vel útfærðum skyndisóknum sínum. 

Það var einmitt eftir laglega skyndisókn sem Leicester tvöfaldaði forystu sína í upphafi seinni hálfleiks. Riyad Mahrez fékk þá boltann frá Ngolo Kante sem hafði leikið á nokkra leikmenn Manchester City áður en hann sendi boltann á Mahrez. Mahrez lék ansi auðveldlega á Martin Demichelis og skoraði með föstu og hnitmiðuðu skoti upp í samskeytin.

Robert Huth skoraði svo annað mark sitt og þriðja mark Leicester eftir um það bil klukkutíma leik með góðum skalla í fjærhornið eftir hornspyrnu. 

Sergio Aguero minnkaði svo muninn með keimlíku marki og Huth skoraði. Aguero mætti fyrirgjöf Bersant Celina sem kom inn á nærsvæðið og skallaði boltann í fallegum boga í fjærhornið. 

Lengra komust leikmenn Manchester City ekki og niðurstaðan 3:1 sigur Leicester sem færir liðinu sex stiga forskot á Manchester City á toppi deildarinnar. 

90. Leik lokið með 3:1 sigri Leicester. 

87. MARK. Man.City - Leicester 1:3. Sergio Aguero skorar sárabótamark fyrir Manchester City með skalla eftir fyrirgjöf frá varamanninum Bersant Celina.

86. Skipting hjá Leicester.  Marc Albrighton fer af velli og Nathan Dyer kemur inná. 

81. Skipting hjá Leicester.  Shinji Okazaki fer af velli og Jose Leonardo Ulloa kemur inná. 

77. Skipting hjá Leicester. Riyad Mahrez fer af velli og Demarai Gray kemur inná. 

76. Skipting hjá Manchester City. David Silva fer af velli og Bersant Celina kemur inná. 

72. Fernando, leikmaður Manchester City, fær gult spjald fyrir brot.

69. Pablo Zabaleta, leikmaður Manchester City, fær gult spjald fyrir brot.

59. MARK. Man.City - Leicester 0:3. Robert Huth fer langt með að tryggja Leicester sigurinn og sex stiga forskot á toppi deildarinnar með góðum skalla í fjærhornið.

54. Varamaðurinn Fernando er fljótur að láta til sín taka og á skalla að marki sem Kasper Schmeichel ver vel.

52. Tvöföld skipting hjá Manchester City. Yaya Toure og Fabian Delph fara af velli og  Kelechi Iheanacho og Fabian Delph fara af velli. 

48. MARK. Man.City - Leicester 0:2. Riyad Mahrez rekur endahnútinn á enn einar vel útfærða skyndisókn Leicester í leiknum og tvöfaldar forystu toppliðsins. Þetta er 14. deildarmark Mahrez á tímabilinu. 

46. Seinni hálfleikur er hafinnn á Etihad. 

45. Hálfleikur á Etihad.

45. Danny Simpson, leikmaður Leicester, fær gult spjald fyrir brot. 

45. Þremur mínutum bætt við venjulegan leiktíma í fyrri hálfleik.

45. Sóknarþungi Manchester City hefur haldið áfram að þyngjast undanfarið, en Leicester hefur sloppið með skrekkinn hingað til.   

36. Wes Morgan, leikmaður Leicester, fær gult spjald fyrir brot.

27. Pressan að aukast hjá Manchester City þessa stundina og jöfnunarmarkið liggur í loftinu. Leicester ógna hins vegar sífellt með skyndisóknum sínum.  

24. Brotið á Kolarov, bakverði Manchester City, á vítateigslínunni. Leikmenn Manchester City heimta vítaspyrnu, en ég held að Anthony Taylor, dómari leiksins, hafi haft rétt fyrir sér með því að dæma aukaspyrnu. Ekkert verðrur úr aukaspyrnunni. 

22. Jamie Vardy kemst nokkuð auðveldlega framhjá Nicolas Otamendi og sendir góða fyrirgjöf. Það munar einungis hársbredd að Okazaki komist í boltann og setji boltann í netið.

18. Sergio Aguero, framherji Manchester City, liggur eftir á vellinum í annað sinn eftir tæklingu. Kæmi mér verulega á óvart ef Aguero nær að klára leikinn. 

14. Manchester City er meira með boltann, en Leicester ógnar svo með vel útfærðum skyndisóknum sínum þegar þeir komast í boltann. 

8. Jamie Vardy, leikmaður Leicester City, við það að sleppa í gegn en Nicolas Otamendi nær að bægja hættunni frá með góðri tæklingu. 

6. Raheem Sterling, leikmaður Manchester City, við það að komast í gott færi eftir sendingu frá David Silva. Kasper Schmeichel tekur boltann af tánum á Sterling rétt áður en hann nær skoti á markið. 

3. MARK. Man.City - Leicester 0:1. Robert Huth kemur Leicester yfir með marki eftir fyrirgjöf frá Riyad Mahrez. 

1. Leikurinn er hafinn á Etihad. 

0. Leicester City hefur þriggja stiga forystu á Manchester City fyrir leik dagsins, en Manchester City hefur hagstæðari markatölu. Manchester City getur því tyllt sér á topp deildarinnar með sigri í þessum leik. 

0. Sergio Aguero getur nálgast Jamie Vardy á listanum yfir markahæstu leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar í vetur með því að skora meira en hann í leiknum. Vardy er markahæsti leikmaður deildarinnar eins og sakir standa með 18 mörk. Riyad Mahrez og Sergio Aguero hafa skorað 13 mörk hvor í deildinni það sem af er vetri, en Aguero hefur skorað flest mörk Manchester City í deildinni á þessari leiktíð.

Byrjunarlið Manchester CityHart, Zabaleta, Otamendi, Demichelis, Kolarov, Toure, Fernandinho, Silva, Delph, Sterling, Aguero.

Byrjunarlið Leicester CitySchmeichel, Simpson, Morgan, Huth, Fuchs, Mahrez, Kante, Drinkwater, Albrighton, Okazaki, Vardy.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert