„Við gefum öllum von“

Claudio Ranieri.
Claudio Ranieri. AFP

„Á tímum þar sem peningar skipta öllu máli þá held ég að við gefum öllum von,“ sagði Claudio Ranieri, knattspyrnustjóri Leicester City, en liðið hans situr á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.

Liðið vann Manchester City í toppslag deildarinnar í gær 3:1 en himinn og haf er á milli fjárráða félaganna.

„Ég sá að þeir voru hræddir við ítalska taktík. Fótbolti er í augum ítalskra þjálfara taktík, að stjórna leiknum með því að fylgja hugmyndum þjálfarans, en ég hef alltaf haft þá skoðun að góður þjálfari þurfi að byggja upp sitt lið á einkennum leikmanna sinna,“ sagði Ranieri við ítalska fjölmiðla í gær.

„Ég sagði við leikmennina að ég treysti þeim og talaði lítið um taktík. Mér fannst mikilvægast að þeir myndu hlaupa eins mikið og þeir gætu í leikjum, alveg eins og þeir gerðu á seinni hluta síðasta tímabils,“ sagði Ranieri en Leicester bjargaði sér frá falli á síðustu leiktíð með góðum endaspretti og mörgum sigurleikjum.

Hann lætur samt sína menn ekki æfa of mikið.

„Ég geng úr skugga um að leikmennirnir fái alltaf tvo daga í frí á viku. Það er samningurinn sem ég gerði við leikmennina á fyrsta degi: Ég treysti ykkur. Ég útskýri einhverjar taktískar hugmyndir öðru hvoru, svo lengi sem þeir gefa mér allt sem þeir eiga,“ sagði Ranieri.

„Ég veit að þetta virkar ekki alltaf svona, en það veit enginn hvernig þetta virkar í raun. Við fundum einhverja lausn sem virkar sjálfkrafa, við þurfum að virða það á allan hátt,“ sagði Ranieri.

Hér má sjá viðtalið við Ranieri í heild sinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert