Clement rekinn frá Derby

Leikmenn Derby voru slegnir út úr bikarkeppninni á dögunum þegar …
Leikmenn Derby voru slegnir út úr bikarkeppninni á dögunum þegar þeir mættu Manchester United. AFP

Enska knattspyrnufélagið Derby County rak fyrir stundu stjórann Paul Clement, sem hafði stýrt liðinu frá síðasta sumri.

Í stað hans mun Darren Wassall stýra liðinu út þetta keppnistímabil en hann er fyrrverandi leikmaður félagsins og hefur stýrt akademíu Derby frá árinu 2009.

Derby átti góðu gengi að fagna í ensku B-deildinni lengi vel í vetur og var á toppi hennar um jólin en þá hafði liðið aðeins tapað tvívegis í 23 fyrstu umferðunum. Síðan hefur hvorki gengið né rekið, en frá 29. desember hefur Derby ekki unnið leik í deildinni, aðeins fengið fjögur stig af 21 mögulegu í sjö leikjum.

Stjórnarformaður Derby sagði hinsvegar á vef félagsins fyrir stundu að ástæðan væri ekki úrslit leikjanna undanfarið. Clement hefði ekki framfylgt stefnu félagsins um leikstíl og þróun liðsins og leikmanna, hann hefði ekki verið á leið í rétta átt og þar með hefði verið óhjákvæmilegt að láta hann víkja.

Clement var áður aðstoðarþjálfari hjá bæði Real Madrid og París SG og starfaði einnig lengi hjá Chelsea.

Derby er nú í fimmta sæti, fimm stigum á eftir toppliðunum Hull og Middlesbrough.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert