Klopp réttir fram sáttarhönd

Stuðningsmenn Liverpool segja skoðun sína á hækkun miðaverðs á heimaleikjum …
Stuðningsmenn Liverpool segja skoðun sína á hækkun miðaverðs á heimaleikjum félagsins á næstu leiktíð. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, hefur ekki miklar áhyggjur af mótmælum stuðningsmanna félagsins og telur að eigendur félagsins muni finna farsæla lausn á málinu sem stuðningsmenn geti sætt sig við.

Um 10.000 stuðningsmenn Liverpool yfirgáfu Anfield, heimavöll félagsins, á 77. mínútu í leik liðsins gegn Sunderland á laugardaginn. Stuðningsmenn Liverpool voru þar að mótmæla áformum eigenda félagsins um að hækka miðaverðið á heimaleikjum félagsins á næstu leiktíð.

Klopp tjáði sig um málið á blaðamannafundi í dag og virtist ekki hafa misst svefn yfir áhyggjum vegna mótmæla stuðningsmannanna. 

„Það var ekki mótmælunum að kenna að við misstum niður forystuna heldur var það frammistaða leikmannanna inni á vellinum sem skipti sköpum þar. Ég get ekki tjáð mig mikið um þetta mál, en vil þó segja að við verðum að skoða þetta mál rækilega á næstunni og hlusta á raddir stuðningsmannanna,“ sagði Klopp á blaðamannafundinum. 

„Ian Ayre [framkvæmdastjóri Liverpool] er með málið á sinni könnu og lítið sem ég get sagt á þessum tímapunkti. Ayre er byrjaður að ræða við þá aðila sem hafa eitthvað um málið að segja. Það er okkar vilji að finna farsæla lausn sem allir geta sætt sig við,“ sagði Klopp enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert