Mun minna með boltann en fyrri meistarar

Leicester-menn þurfa ekkert að vera meira með boltann til að …
Leicester-menn þurfa ekkert að vera meira með boltann til að vinna leiki, eins og gegn Manchester City um helgina. AFP

Fari svo að Leicester takist að halda efsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar til loka tímabilsins, og landa sjálfum Englandsmeistaratitlinum, yrði sá árangur svo sannarlega athyglisverður fyrir margra hluta sakir.

Eitt af því sem skilur Leicester frá liðunum sem orðið hafa Englandsmeistarar á þessari öld er það hvernig fótbolta liðið spilar. Claudio Ranieri reynir ekki að láta sína menn halda boltanum sérstaklega mikið innan liðsins, heldur er ætlunin að sækja leifturhratt þegar andstæðingurinn missir knöttinn.

Opta-tölfræðivefurinn hefur tekið saman yfirlit yfir það hve stóran hluta leikja Englandsmeistarar síðustu 12 tímabila hafa haldið boltanum innan síns liðs. Arsenal, Chelsea, Manchester City og Manchester United eru þau lið sem unnið hafa titilinn á þessum árum, og meistararnir hafa alltaf haldið boltanum í á bilinu 55,4% - 59,7% leiktímans.

Það sem af er leiktíð hefur Leicester hins vegar að meðaltali haldið boltanum í aðeins 40,9% leiktímans í sínum leikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert