Arsenal þénar mest í miðasölu

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, er menntaður hagfræðingur sem hefru komið …
Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, er menntaður hagfræðingur sem hefru komið að góðum notum í fjármálum félagsins. AFP
Deloitte birti í dag lista yfir tekjuhæstu knattspyrnufélög heims þegar litið er til tekna félaganna af miðasölu. Arsenal er efst á þessum lista, en félagið halaði inn rúmar 100 milljónir punda á síðasta ári.

Arsenal stendur betur að vígi hvað tekjur af miðasölu varðar en Real Madrid, Barcelona og Manchester United þó svo að síðarnefnd lið séu með mun fleiri áhorfendur á heimaleikjum sínum að meðaltali.

Arsenal setti met á síðasta ári þegar liðið varð fyrsta lið heims til að fá yfir 100 milljónir punda í tekjur á leikdegi yfir síðasta keppnistímabil. Það jafngildir 18,5 milljörðum íslenskra króna.

Real Madrid var í öðru sæti með 98,8 milljónir punda, en meðalfjöldi áhorfenda er mun meiri í Madrid en í Lundúnum. Að jafnaði koma 60 þúsund á völlinn hjá Arsenal á móti 73 þúsund hjá Real Madrid.

Barcelona er í þriðja sæti listans með 88,9 milljónir punda og næst á listanum er síðan Manchester United með 86,7 milljónir punda þótt að jafnaði séu 15 þúsund fleiri á hverjum leik hjá Manchester United en hjá Arsenal. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert