Collison leggur skóna á hilluna

Collison lék lengst af með West Ham.
Collison lék lengst af með West Ham. AFP

Miðjumaðurinn Jack Collison hefur neyðst til að leggja skóna á hilluna. Collison, sem er 27 ára gamall, lék 121 leik með West Ham á sjö árum áður en hann gekk til liðs við Peterborough síðasta sumar. 

Hann kom 12 sinnum við sögu hjá C-deildarliðinu í vetur en hættir nú knattspyrnuiðkun vegna tíðra hnémeiðsla. „Næturnar þar sem ég vakna og er að drepast úr verkjum og morgnanir þar sem ég get varla gengið verða minning um að ég var svo heppinn að geta spilað leikinn sem ég elska,“ sagði Collison.

„Jafnvel þótt knattspyrnan hafi gert mig að þeim manni sem ég er í dag þá skilgreinir hún ekki hver ég er. Ég lít framtíðina björtum augum,“ sagði Collison ennfremur en hann ætlar að snúa sér að þjálfun nú þegar leikmannaferlinum er lokið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert