Sunderland skellti Manchester United

Koné sést hér skora sigurmark Sunderland í leiknum með skalla.
Koné sést hér skora sigurmark Sunderland í leiknum með skalla. AFP

Sunderland sigraði Manchester United, 2:1, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Sunderland er þrátt fyrir sigurinn enn í næst neðsta sæti deildarinnar, nú með 23 stig. Manchester United er  í 5. sætinu með 41 stig.

Heimamenn skoruðu fyrsta mark leiksins á 3. mínútu. Khazri tók aukaspyrnu úti á vinstri vængnum, boltinn sveif framhjá öllum og endaði í markinu. United jafnaði metin þegar rúmar fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Martial fylgdi þá eftir skoti Mata, staðan 1:1 að loknum fyrri hálfleik.

Bæði lið reyndu að sækja og tryggja sér sigurinn í síðari hálfleik. Heimamönnum tókst ætlunarverkið þegar varnarmaðurinn Koné skoraði með skalla átta mínútum fyrir leikslok. Gestirnir reyndu að jafna, án árangurs og heimamenn fögnuðu sætum sigri.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu á mbl.is:

90. Leiknum er lokið! Sunderland sigrar Manchester United, 2:1!

89. Gestirnir vilja fá vítaspyrnu! Var þetta hendi? Memphis spyrnir knettinum, að því er virðist, í höndina á varnarmanni Sunderland. Leikmenn United vilja vítaspyrnu en fá ekkert.

85. Skipting hjá báðum liðum. Toivonen kemur inn á fyrir Cattermole hjá Sunderland. Keane kemur inn á hjá United fyrir Schneiderlin.

82. MARK! Sunderland er komið yfir, staðan er 2:1. Khazri með hornspyrnu og Kone nær skalla að marki. Boltinn lekur undir de Gea og endar í netinu. Heimamenn aftur komnir yfir og lítið eftir af leiknum!

71. Skipting hjá Sunderland. Defoe fer af velli og Borini kemur inn á í hans stað.

62. Skipting hjá United. Memphis kemur inn á fyrir Lingard.

61. Usss. Heimamenn nálægt því að komast yfir. N’Doye, einn gegn David de Gea en Spánverjinn ver vel.

53. Kraftur í heimamönnum í upphafi síðari hálfleiks. Defoe kemst í dauðafæri en Blind nær að renna sér fyrir knöttinn og kemur í veg fyrir að Sunderland nái forystunni aftur.

46. Síðari hálfleikur er hafinn!

45. Fjörugum fyrri hálfleik er lokið og staðan er jöfn, 1:1. Gestirnir frá Manchester hafa verið meira með boltann en skyndisóknir heimamanna hafa verið hættulegar.

39. MARK! Manchester United er búið að jafna, staðan er 1:1! Martial fylgir eftir þegar skot frá Mata er varið og skorar fallegt mark.

37. Skipting hjá United. Darmian fór meiddur af velli og Love kemur inn á í hans stað.

35. United er meira og minna með boltann þessa stundina, án þess þó að ná að skapa sér almennilegt marktækifæri. 

25. Hendi?? Markaskorinn Krazri þrumar boltanum í átt að marki United og boltinn smellur í höndinni á Schneiderlin. Dómarinn dæmir ekkert. Hönd í bolta eða bolti í hönd? Það er stóra spurningin.

15. Fyrsta skipting leiksins. Kirchhoff fer meiddur af velli í liði Sunderland og Rodwell kemur inn á í hans stað.

11. Úff, þarna munaði litlu. Defoe var alveg við það að komast í frábært færi en náði ekki að hitta boltann og United slapp með skrekkinn!

8. Lingard settist á völlinn og leit út fyrir að meiða sig í fætinum. Hann fékk smá högg á fótinn en ætlar að harka þetta af sér.

3. MARK! Heimamenn í Sunderland eru komnir yfir, staðan er 1:0! Khazri tók aukaspyrnu úti á vinstri kantinum. Knötturinn fór framhjá öllum í teignum og framhjá David de Gea í marki United.

1. Leikurinn er hafinn!

0. Adam Johnson leikur ekki meira með Sunderland en félagið rifti samningi við hann á fimmtudag. Hann var hand­tek­inn í mars á síðasta ári grunaður um að hafa haft sam­ræði við 15 ára stúlku en hann játaði það fyr­ir rétti á miðvikudag.

Byrjunarliðin eru klár og þau má sjá hér að neðan:

Sunderland: Mannone, Yedlin, O’Shea, Kone, van Aanholt, Kirchhoff, Cattermole, M’Vila, Khazri, N’Doye, Defoe.
Varamenn: Brown, Rodwell, Borini, Matthews, Pickford, Toivonen, Honeyman.

Manchester United: De Gea, Darmian, Smalling, Blind, Borthwick-Jackson, Schneiderlin, Carrick, Lingard, Mata, Martial, Rooney.
Varamenn: Romero, Love, Weir, Pereira, Herrera, Memphis, Keane.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert