Væri ákaflega svekktur

Fjórða sætið væri flott, segir van Gaal.
Fjórða sætið væri flott, segir van Gaal. AFP

Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að hann væri ákaflega vonsvikinn ef United væri búið að hafa samband við Portúgalann José Mourinho. 

Greint var frá því fyrir viku að fulltrúar Mourinho hefðu rætt við Manchester United og Portúgalinn myndi taka við United í sumar. Aðspurður sagðist van Gaal ekki geta útilokað að viðræðurnar hefðu átt sér stað.

„Það er allt mögulegt í fótboltanum en ég hef ekki trú á því,“ sagði van Gaal og bætti við að samband hans við eigendur United væri afar gott.

Van Gaal tók við knattspyrnustjórn United árið 2014. Undir hans stjórn hafnaði liðið í fjórða sæti á síðustu leiktíð og telur Hollendingurinn að sama niðurstaða í ár væri góð. United er sem stendur í fimmta sætinu, sex stigum á eftir Manchester City sem er sæti ofar.

„Ég tel það já. Ég held að við verðum að líta á hlutina í réttu samhengi,“ sagði van Gaal en United sækir Sunderland heim í fyrsta leik dagsins í enska boltanum. Leikurinn hefst klukkan 12.45 og verður lýst í beinni textalýsingu á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert