Arsenal tryggði sér sigur á síðustu sekúndunni

Walcott jafnar metin.
Walcott jafnar metin. AFP

Arsenal sigraði Leicester, 2:1, í stórleik í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Eftir leikinn er Leicester áfram í efsta sæti deildarinnar með 53 stig. Arsenal er í 2. sæti með 51 stig.

Arsenal var miklu meira með boltann í fyrri hálfleik en gekk illa að skapa sér færi. Gestirnir lágu til baka og freistuðu þess að beita skyndisóknum. Þeir skoruðu eina mark hálfleiksins eftir eina slíka. Nacho Monreal braut þá á Jamie Vardy innan vítateigs og Vardy skoraði sjálfur úr spyrnunni á síðustu mínútu fyrri hálfleiks. Staðan því 1:0 fyrir Leicester þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Leicester hóf síðari hálfleikinn afskaplega illa en varnarmaðurinn Danny Simpson fékk tvö gul spjöld á sex mínútna kafla og þar með rautt spjald á 54. mínútu. Arsenal sótti án afláts það sem eftir lifði leiks og Theo Walcott jafnaði metin 20 mínútum fyrir leikslok.

Allt leit út fyrir að Leicester væri að tryggja sér mikilvægt stig en varamaðurinn Danny Welbeck tryggði Arsenal frábæran sigur með skallamarki á síðustu sekúndu leiksins. Ótrúlegur endir á skemmtilegum leik.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu á mbl.is:

90. Leiknum er lokið! Úff, Arsenal vann ótrúlegan sigur. Maður getur ekki annað en fundið til með leikmönnum Leicester samt, þeir börðust og börðust en uppskera ekkert. Toppbaráttan er núna galopin.

90. MARK!!!!!!! Jahérnahér! Danny Welbeck tryggir Arsenal hér sigurinn með líklega síðustu snertingu leiksins! Özil tekur aukaspyrnu og Welbeck skallar boltann í markið og leikmenn og stuðningsmenn Arsenal tryllast úr gleði!

90. Wasilewski fær gult spjald fyrir að brjóta á Monreal. Lítið eftir af leiknum.

90. Venjulegur leiktími er liðinn og það eru 4 mínútur í uppbótartíma.

88. Schmeichel ver frábærlega frá Giroud sem nær góðu skoti frá vítapunktinum!

87. Úff! Welbeck örugglega smá ryðgaður, enda langt síðan hann spilaði síðast. Giroud skallar boltann á hann í frábærri stöðu en Welbeck hittir ekki boltann og Leicester sleppur.

85. Mertesacker! Þýski varnarmaðurinn skallar boltann um það bil 30 cm framhjá marki Leicester. Þarma munaði litlu.

81. Skipting hjá báðum liðum. Hjá Leicester fer Albrighton af velli og King kemur inn á í hans stað. Hjá Arsenal fer Chamberlain af velli og Welbeck kemur inn á í hans stað.

74. Ramsey þrumar boltanum framhjá markinu úr góðu færi. Rétt á undan því hafði Giroud reynt að taka boltann á lofti og „klippa“ hann í markið. Það vildi ekki betur til en hann þrumaði beint í höndina á Robert Huth en sá þýski stóð alveg upp við Giroud þannig að dómarinn dæmdi ekki vítaspyrnu. Arsenal er í stórsókn.

70. MARK! Arsenal jafnar, staðan er 1:1! Bellerin gefur boltann fyrir markið. Þar skallar Giroud boltann beint fyrir fætur Theo Walcott og hann skilar knettinum í netið. Staðan jöfn, Arsenal manni fleiri og 20 mínútur eftir!

64. Pressan er að aukast hjá Arsenal. Allir leikmenn Leicester nema Vardy nánast við eigin vítateig. Ég leyfi mér að efast um að gestirnir geti hangið á þessu eina markið það sem eftir lifir leiks.

60. Önnur skipting hjá Leicester. Okazaki fer af velli og Gray kemur inná í hans stað. Arsenal gerir einnig breyting. Coquelin fer af velli og Walcott kemur inn á. 

57. Skipting hjá Leicester. Mahrez er tekinn af leikvelli og varnarmaðurinn Wasilewski kemur inn á í hans stað. Það er væntanlega gert til að fylla upp í skarðið sem Simpson skildi eftir sig þegar hann var rekinn af velli.

56. Kanté fær gult spjald fyrir að brjóta á Özil sem var á fleygiferð fram völlinn í hraðri sókn.

54. RAUTT SPJALD! Danny Simpson fær annað gula spjaldið sitt í upphafi síðari hálfleiks og er þar með rekinn af leikvelli. Í þetta skiptið hélt hann í Giroud sem var að reyna að losa sig frá Simpson. Dómari leiksins var ekki hrifinn af þessum varnarleik og sýndi Simpson annað gult spjald og þar með rautt.

53. Monreal með flotta sendingu fyrir markið en Giroud þarf að teygja sig í boltann og skallar hann hárfínt yfir markið. Arsenal eru líklegir hér í upphafi síðari hálfleiks.

50. Mahrez sólar Arsenal-menn upp úr skónum áður en hann reynir að fiska vítaspyrnu. Hann fær ekkert og hlær en þetta var ekki vítaspyrna.

48. Simpson fær gult spjald fyrir að struja Alexis Sánchez. Stuðningsmenn Arsenal fagna innilega.

46. Arsenal hefur síðari hálfleikinn með stórsókn. Ramsey rekur endahnútinn á sóknina en þrumar boltanum framhjá marki Leicester.

46. Skipting hjá Arsenal. Chambers kemur inn í á hjá Arsenal í staðinn fyrir Koscielny.

46. Síðari hálfleikur er hafinn!

45. Fyrri hálfleik er lokið. Leicester er með eins marks forystu að honum loknum, 1:0. Heldur ævintýrið áfram?

45. Ramsey fær gult spjald fyrir að brjóta á Okazaki.

45. MARK!!! Leicester er komið yfir, staðan er 1:0. Jamie Vardy skorar af miklu öryggi úr vítaspyrnunni. Þrumar boltanum í vinstra hornið og Cech fer í vitlaust horn.

43. Koscielny fær gult spjald fyrir brot úti á velli. Leikurinn heldur áfram og Monreal brýtur á Jamie Vardy inni í vítateig og Leicester fær víti!

39. Frábær markvarsla hjá Cech! Kanté skaut að marki, skotið var ákaflega lúmskt og var á leiðinni upp í samskeytin en Cech er betri en enginn og ver með tilþrifum.

35. Coquelin fær fyrsta gula spjaldið í dag fyrir að tækla Mahrez.

31. Giroud skorar með skallar en er dæmdur rangstæður og markið telur því ekki. Þetta var tæpt en líklega rétt hjá línuverðinum.

24. Sánchez með hörkuskot að marki Leicester en fyrirliðinn, Wes Morgan, hendir sér fyrir boltann og bjargar líklega marki!

15. Vá! Kasper Schmeichel, markvörður Leicester, með frábæra tæklingu þegar Ramsey var við það að sleppa í gegnum vörn Leicester. Gestirnir brunuðu beint í sókn og Cech varði vel frá Vardy.

9. Arsenal-menn vilja fá vítaspyrnu þegar Chamberlain spyrnir knettinum í höndina á Kanté. Færið er stutt en Kanté virðist setja höndina aðeins út til að stöðva boltann. Dómari leiksins dæmir ekkert.

7. Arsenal er 72% með boltann í byrjun leiks. Gestirnir liggja til baka og bíða færis.

1. Arsenal hefur leikinn í stórsókn. Sánchez fékk boltann hægra megin í teignum og reyndi að senda fyrir markið. Hefði hann frekar átt að skjóta? Heimamenn fengu í kjölfarið hornspyrnu og títtnefndur Sánchez skallar rétt framhjá marki Leicester!

1. Leikurinn er hafinn!

0. Arsenal vann fyrri viðureign liðanna, 5:2, á heimavelli Leicester 26. september. Er það einungis annar af tveimur tapleikjum toppliðsins á tímabilinu. Hinn kom gegn Liverpool á Anfield á öðrum degi jóla.

Byrjunarliðin í dag eru klár og þau má sjá hér að neðan:

Arsenal: Cech, Bellerin, Mertesacker, Koscielny, Monreal, Coquelin, Ramsey, Chamberlain, Özil, Sánchez, Giroud.
Varamenn: Ospina, Chambers, Flamini, Elneny, Campbell, Walcott, Welbeck.

Leicester: Schmeichel, Simpson, Morgan, Huth, Fuchs, Mahrez, Kante, Drinkwater, Albrighton, Okazaki, Vardy.
Varamenn: Schwarzer, King, Gray, Ulloa, Dyer, Wasilewski, Chilwell.

Jamie Vardy skorar úr vítaspyrnunni.
Jamie Vardy skorar úr vítaspyrnunni. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert