Hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Liverpool

Mario Balotelli í leik með AC Milan á tímabilinu.
Mario Balotelli í leik með AC Milan á tímabilinu. AFP

Knattspyrnumaðurinn Mario Balotelli hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Liverpool að sögn blaðamannsins James Pearce hjá Liverpool Echo.

Balotelli er ekki í áætlunum Jürgen Klopp stjóra Liverpool og ætlar liðið að losa sig við hann áður en það hefur undirbúningstímabilið í sumar.

Balotelli var lánaður til ítalska liðsins AC Milan fyrir yfirstandandi tímabil þar sem hann hefur átt erfitt uppdráttar en hann hefur aðeins skorað tvö mörk í 11 leikjum.

Liverpool keypti hann á 16 milljónir punda fyrir tímabilið 2014-15.

Samkvæmt frétt Liverpool Echo er talið vel líklegt að ítalski framherjinn fari til Kína eftir tímabilið en einnig hafa lið frá Tyrklandi borið víurnar í hann.

Balotelli fór í aðgerð á nára í nóvember en hann lék þó í sigri Milan á Genoa um síðustu helgi en stjóri Milan-liðsins setti hins vegar spurningarmerki við vinnuframlag kappans. Eitthvað sem var ítrekað í umræðunni á tíma Balotelli hjá Liverpool er þar skoraði framherjinn aðeins fjögur mörk í 28 leikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert