Vítaspyrna Milners dugði Liverpool

Christoph Janker og Roberto Firmino eigast við í fyrri leiknum.
Christoph Janker og Roberto Firmino eigast við í fyrri leiknum. AFP

Enska úrvalsdeildarfélagið Liverpool er komið áfram í 16-liða úrslit Evrópudeildarinnar eftir að hafa lagt Augsburg að velli 1:0 á Anfield í kvöld. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is

Fyrri leik þessara liða lauk með markalausu jafntefli í Þýskalandi en þýska liðið var ansi öflugt í þeim leik.

Liverpool byrjaði mun betur í kvöld og réðust úrslitin með marki strax á 5. mínútu leiksins en þá fékk Liverpool vítaspyrnu er boltinn fór í höndina á Dominick Kohr. James Milner tók spyrnuna og skoraði af miklu öryggi.

Philippe Coutinho og Roberto Firmino gátu báðir bætt við mörkum í fyrri hálfleik en Marwin Hitz sá við þeim í markinu. Augsburg átti nokkur góð tækifæri í leiknum, en þeim brást þó bogalistin í þeim tækifærum.

Lokatölur því 1:0 Liverpool í vil en liðið er komið áfram í 16-liða úrslit Evrópudeildarinnar.

Alfreð Finnbogason var ekki í leikmannahópi Augsburg þar sem hann var ekki löglegur með liðinu í þessari umferð.

Leik lokið: Liverpool er komið í 16-liða úrslit Evrópudeildarinnar. Augsburg tókst að ógna liðinu undir lok leiks en það var ekki nóg. Vítaspyrna James Milner var því nóg til þess að komast áfram.

89. VÁÁÁÁÁ!!! Stafylidis með magnaða aukaspyrnu yfir vegginn en hún fer rétt framhjá markinu. Boltinn leit út fyrir að vera á leið í markið en Liverpool stálheppið að jöfnunarmarkið hafi ekki komið þarna.

87. AUGSBURG GRÁTLEGA NÁLÆGT ÞVÍ!! Virkilega öflug sókn. Það kom stungusending inn á Caiuby sem kom svo með fyrirgjöfina en mér sýndist það vera Esswein sem eiginlega eyðilagði sóknina með því að stoppa boltann í teignum. Hefði hann látið hann fara áfram þá hefði Augsburg sennilega skorað.

84. Lítið sem ekkert að gerast þessa stundina.

71. WERNER!! Hann komst í gegn en Mignolet gerði vel og hljóp út á móti. Boltinn barst á leikmann Augsburg sem var of lengi að athafna sig fyrir utan teiginn og sóknin rann því út í sandinn.

68. Það er eitthvað minna að frétta úr leiknum. Allt fremur rólegt og eins og staðan er núna þá er Liverpool á leið í 16-liða úrslit.

49. DANIEL STURRIDGE!! Hann lék á varnarmann áður en hann lét vaða á markið, en boltinn rétt framhjá. Hvernig klúðraði hann þessu?

46. Síðari hálfleikur er kominn af stað.

Hálfleikur: Liverpool er verðskuldað yfir í hálfleik. Liðið var líklegt til að bæta við fleiri mörkum en tókst þó ekki. Lucas var stálheppinn að Caiuby myndi þá ekki skora tíu mínútum áður en flautað var til hálfleiks er hann sendi boltann til baka. Liverpool virðist vera að sigla áfram í 16-liða úrslitin miðað við þróun leiksins.

35. CAIUBY NÁLÆGT ÞVÍ AÐ JAFNA!! Lucas Leiva með skelfilega sendingu til baka sem Caiuby kemst inn í. Hann fer framhjá Mignolet vinstra megin við teiginn, en skot hans fór framhjá. Þá var Mamadou Sakho einnig mættur til þess að bjarga.

27. FIRMINO! Það er allt vaðandi í færum í þessum leik. Firmino fékk boltann í teignum og kom honum á markið en Hitz aftur vel á verði og ver í horn.

25. MIGNOLET! Góð varsla frá belgíska markverðinum en það var Stafylidis sem átti skot rétt fyrir utan.

24. CLYNE!! Sturridge lagði boltann á Clyne sem var í teignum en skotið fer rétt framhjá markinu. Liverpool líklegt til að bæta við öðru þessa stundina.

21. ÞARNA MUNAÐI LITLU!! Coutinho komst í ákjósanlegt færi eftir sendingu frá Daniel Sturridge en Hitz tókst að bjarga þessu með laglegri vörslu. Frábært táarskot frá Coutinho engu að síður.

16. Firmino með ágætt skot rétt fyrir utan teig en boltinn lekur framhjá markinu. Lítið að gerast þessa stundina annars.

5. MAAAAAAAAAARK!!! Liverpool 1:0 Augsburg. James Milner skýtur fast í hægra hornið - óverjandi. Jürgen Klopp er auðvitað sáttur með sína menn núna.

4. VÍTI Á AUGSBURG!!! Það kom fyrirgjöf frá hægri og boltinn fer í höndina á Kohr að mér sýndist og nú fer James Milner á punktinn.

1. CAIUBY!! Þetta tók ekki langan tíma. Augsburg kemur sér strax í færi er boltinn berst til Caiuby en skot hans fer rétt yfir markið. Heimamenn sofandi í byrjun leiks.

1. Leikurinn er kominn af stað.

0. Hægt er að sjá byrjunarliðin hér fyrir neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert