Gerir prinsinum greiða og stýrir landsliði

Harry Redknapp var síðast stjóri QPR.
Harry Redknapp var síðast stjóri QPR. AFP

Knattspyrnustjórinn Harry Redknapp ætlar að bregða sér í hlutverk landsliðsþjálfara í skamma stund þó að hann sé nýtekinn við sem yfirmaður knattspyrnumála hjá Derby County.

Redknapp, sem er 69 ára gamall, mun stýra landsliði Jórdaníu í tveimur leikjum í undankeppni HM í lok þessa mánaðar, gegn Bangladesh og Ástralíu.

Það var jórdanski prinsinn Ali bin Hussein, sem sóttist eftir því að verða forseti FIFA, sem fékk Redknapp til að taka við landsliðinu. Redknapp mun ferðast til Jórdaníu eftir leik Derby og Nottingham Forest á laugardag.

„Þetta verða tvær erfiðar vikur, það er á hreinu,“ sagði Redknapp.

„Ég er vinur Ali prins og ég vildi að hann tæki við af Sepp Blatter. Hann spurði hvort ég væri til í að stýra landsliðinu í tveimur leikjum og ég var til í það. Ég fer eftir leikinn við Forest beint til London og flýg svo til Jórdaníu. Þetta er annasamur tími en ég hef saknað látanna sem fylgja því að vera í fótboltanum,“ sagði Redknapp, sem stýrði síðast QPR og var þar áður stjóri Tottenham.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert