Af hverju ætti hann að fara til Chelsea eða United?

Redknapp skilur ekki hvers vegna Pochettino ætti að yfirgefa Tottenham.
Redknapp skilur ekki hvers vegna Pochettino ætti að yfirgefa Tottenham. AFP

Fyrrverandi knattspyrnustjóri Tottenham og fleiri liða, Harry Redknapp, skilur ekki hvers vegna núverandi stjóri Tottenham, Mauricio Pochettino, ætti að yfirgefa liðið til að taka við Chelsea eða Manchester United.

Tottenham er í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, fimm stigum á eftir Leicester en Pochettino hefur verið orðaður við stjórastarfið hjá United og Chelsea.

„Það hefur verið mikið rætt og ritað um framtíð Mauricio Pochettino en af hverju ætti hann að yfirgefa Tottenham?“ spyr Redknapp í dálki sínum í London Evening Standard.

„Hann stendur sig frábærlega og við viljum sjá hann halda áfram á sömu braut. Tottenham er stórlið með frábæra aðstöðu og liðið flytur fljótlega á nýjan leikvang. Af hverju ætti hann að fara til Chelsea eða United, þar sem hann þyrfti að byggja upp nýtt lið? Ætti hann ekki frekar að halda áfram þar sem vel gengur?“ spyr Redknapp ennfremur.

„Það er auðvelt að kaupa fullt af meðalmönnum, eins og United hefur gert. Tottenham þarf aðeins að fínpússa hópinn í sumar og knattspyrnustjórinn skiptir miklu máli. Pochettino ætti að vera stjórinn áfram í mörg ár.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert